Innlent

Jafnræði að laun allra sem lækkuðu séu hækkuð á ný

Reykjavíkurborg er sökuð um að mismuna starfsmönnum sínum eftir því hvort laun þeirra heyra undir kjararáð eða ekki. Hvorki náðist í borgarstjóra né formann borgarráðs við vinnslu fréttarinnar.
Reykjavíkurborg er sökuð um að mismuna starfsmönnum sínum eftir því hvort laun þeirra heyra undir kjararáð eða ekki. Hvorki náðist í borgarstjóra né formann borgarráðs við vinnslu fréttarinnar. fréttablaðið/gva
Kópavogsbær hækkaði laun allra starfsmanna sem tóku á sig launalækkun 2009, líka þeirra sem ekki heyra undir kjararáð. Vildum tryggja jafnræði, segir upplýsingafulltrúi bæjarins. Kallað er eftir því að Reykjavíkurborg geri slíkt hið sama.

Bæjarráð Kópavogs samþykkti í febrúar að draga launahækkanir allra þeirra sem urðu fyrir launaskerðingu árið 2009 til baka. Ákvörðunin var tekin í kjölfar ákvörðunar kjararáðs, en hluti yfirstjórnenda fylgir ákvörðunum þess í launum.

Arna Schram, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, segir að með þessu hafi bæjaryfirvöld viljað tryggja jafnræði starfsmanna sinna.

„Þegar kjararáð ákvað í vetur að draga til baka launalækkanir þeirra sem heyra undir ráðið, ákvað Kópavogsbær að láta þær leiðréttingar ekki einungis ná til þeirra yfirstjórnenda sem eiga samkvæmt ráðningarsamningum að fylgja kjararáðsákvörðunum um starfsmenn ríkisins, heldur einnig til þeirra millistjórnenda hjá bænum sem líka höfðu tekið á sig launalækkanir árið 2009.

Þannig vildi bærinn tryggja jafnræði meðal þeirra starfsmanna sem tekið höfðu á sig beinar launalækkanir árið 2009. Að óbreyttu hefðu einungis æðstu stjórnendur bæjarins fengið launalækkanir sínar til baka en ekki millistjórnendur.“

Bandalag háskólamanna (BHM) hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg geri slíkt hið sama. Samið var um launaskerðingu í janúar 2009 og laun yfir 300 þúsund krónum voru lækkuð um 4 til 10%. Það var gert með minni yfirvinnu. Skýrt var tekið fram að lækkunin ætti að vera tímabundin. Hjá Kópavogsbæ var lækkunin 5 til 10% á laun yfir 500 þúsund krónur.

Laun þeirra yfirmanna hjá borginni sem tengjast kjararáði hækkuðu við ákvörðun ráðsins, en ekki annarra. Í svari Reykjavíkurborgar við umleitan BHM segir að hámark yfirvinnu hafi verið lækkað úr 48 klukkustundum á mánuði í 35. Þar er því hafnað að um vangoldin laun sé að ræða. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×