Handbolti

Vélmenni þurfa líka að fara í viðgerð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Alexander hefur líkt og fleiri spilað meiddur fyrir hönd þjóðarinnar. Nú þarf öxlin á hvíld að halda.Fréttablaðið/Valli
Alexander hefur líkt og fleiri spilað meiddur fyrir hönd þjóðarinnar. Nú þarf öxlin á hvíld að halda.Fréttablaðið/Valli
"Ég hef tekið þá ákvörðun að vera ekki með í þetta sinn því ég tel að það sé mikilvægara fyrir mig og landsliðið að ég nái mér góðum og komi þá enn sterkari til leiks í framtíðinni," segir Alexander Petersson, sem glímt hefur við meiðsli á öxl í langan tíma.

Meiðslin plöguðu Alexander einnig í aðdraganda Evrópumótsins í Serbíu í janúar en hann gaf engu að síður kost á sér. Hann spilaði töluvert framan af móti en svo sagði líkaminn stopp. Hann segir það sennilega hafa verið mistök að gefa kost á sér og hann hafi lært af þeim mistökum.

„Í þetta sinn er ég að hlusta á líkama minn sem hefur ekki fengið frí í eitt og hálft ár. Það er ekki mannlegt að spila á þremur stórmótum á einu ári. Það mun verða mjög erfitt að horfa á strákana spila og ekki geta verið með," segir Alexander. Það sé ósk hans að fólk skilji og virði ákvörðun sína. Það sé ólíkt að spila með félagsliði og á stórmóti þar sem leikjaálagið er gífurlegt og hver einasti leikur upp á líf eða dauða.

Alexander hefur spilað með íslenska landsliðinu á níu stórmótum. Hann spilaði í fyrsta skipti með landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Túnis árið 2004 og hefur síðan þá verið mikilvægur leikmaður liðsins. Alexander, sem flutti til Íslands átján ára gamall frá Lettlandi, hefur spilað með íslenska landsliðinu. Ljóst er að fjarvera Alexanders veikir liðið en hann minnir á að góðir menn geti fyllt skarð hans og Ólafs Stefánssonar fari svo að Ólafur gefi ekki kost á sér.

„Ég hef spilað nánast sextíu mínútur í hverjum einasta leik bæði með félagsliði sem og landsliði undanfarin ár og þarf núna örlitla hvíld," segir Alexander. Útlit er fyrir að mikil ábyrgð muni hvíla á Ásgeiri Erni Hallgrímssyni í stöðu hægri skyttu og Alexander segir tíma kominn á Hafnfirðinginn.

„Ég hef fulla trúa á Ásgeiri Erni sem er frábær leikmaður í bæði vörn sem sókn og getur vel fyllt skarð mitt og Óla. Nú er hans tími kominn til að sanna sig," segir Alexander sem óskar félögum sínum í landsliðinu góðs gengis á Spáni.

„Hingað til hef ég hugsað til skemmri tíma og oft tekið þátt í stórmótum og barist við meiðsli á sama tíma. Þetta er mjög erfið ákvörðun en ég tel að ég muni koma sterkari til baka. Jafnvel vélmenni þurfa að fara í viðgerð," segir Alexander á léttu nótunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×