Viðskipti innlent

Eyrir Invest eykur hlut sinn í ReMake Electric

Hilmir Ingi Jónsson og Þórður Magnússon.
Hilmir Ingi Jónsson og Þórður Magnússon.
Eyrir Invest og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins ásamt smærri hluthöfum hafa aukið við hlutafé sitt í fyrirtækinu ReMake Electric ehf. Eftir hlutafjáraukninguna á Eyrir Invest 26,2% í fyrirtækinu og Nýsköpunarsjóður 18% en markmið fyrirtækisins er að verða leiðandi á heimsmarkaði með lausnir til orkustjórnunar í heimilum og fyrirtækjum.

"Það hefur verið afar mikilvægt fyrir okkur sem ungt fyrirtæki að njóta þeirrar þekkingar og reynslu sem við höfum hlotið frá okkar stærstu hluthöfum og því gríðarlega mikils virði fyrir okkur að finna traustið og halda áfram nánu samstarfi við okkar fjárfesta," segir Hilmir Ingi Jónsson, framkvæmdastjóri ReMake Electric í tilkynningu um málið.

Fyrirtækið ReMake Electric hefur þróað einkaleyfisvarða vélbúnaði til raforkumælinga í rafmagnsskápum í heimilum og fyrirtækjum. ReMake hefur einnig þróað hugbúnað fyrir orkustjórnun sem gerir notendum kleift að sjá ítarlegar upplýsingar um orkunotkun sína ásamt kostnaði við sína notkun.

"Síðan Eyrir kom að fyrirtækinu árin 2009-2010 hefur orðið mikill framgangur í tækniþróun félagsins. ReMake sigraði Gulleggið árið 2010 og hefur síðan fengið allnokkrar og alþjóðlegar viðurkenningar ásamt því að íslensk fyrirtæki eru nú þegar að nota ReMake vörur til þess að halda nákvæmu eftirliti um sína orkunotkun og ná fram miklum sparnaði í sínum rekstri. Því má segja að fyrsti fasi af samstarfi og fjárfestingu okkar í ReMake hafi gengið afar vel og við sjáum fram á mikil tækifæri í okkar öðrum fasa með fyrirtækinu sem er markaðssókn erlendis," segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest og ReMake Electric.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×