Viðskipti innlent

SA segir að störfum gæti fjölgað á næsta ári

Ný könnun Samtaka atvinnulífsins meðal aðildarfyrirtækja SA gefur til kynna að störfum á almennum vinnumarkaði gæti fjölgað á næsta ári.

Langflestir stjórnenda eða 59%, búast þó við óbreyttum starfsmannafjölda í sínum fyrirtækjum næstu 12 mánuðina. 22% fyrirtækja hyggjast fjölga starfsfólki á næstu 12 mánuðum en 19% hyggjast fækka starfsfólki.

Í sjávarútvegi gera fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum ráð fyrir að fækka starfsfólki, 53% ráðgera engar breytingar á starfsmannafjölda en aðeins 7% búast við fjölgun. Einnig búast fleiri verslunar- og þjónustufyrirtæki við að fækka starfsfólki.

Í öðrum atvinnugreinum búast fleiri fyrirtæki við fjölgun starfsmanna en fækkun þeirra. Einkum hafa ferðaþjónustufyrirtæki uppi áform um fjölgun starfsmanna en rúmur þriðjungur þeirra hyggst fjölga starfsfólki en aðeins 7% fækka.

„Þessar niðurstöður eru almennar vísbendingar um að störfum á almennum vinnumarkaði gæti fjölgað á næsta ári," segir á vefsíðu SA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×