Viðskipti innlent

Lítil velta með atvinnuhúsnæði í september

Mjög lítil velta var með atvinnuhúsnæði í september sl. miðað við hvernig veltan hefur verið undanfarna mánuði.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig nam velta með atvinnuhúsnæði á landinu öllu aðeins um 2,2 milljörðum kr. í september mánuði sl. en til að mynda var veltan 11,1 milljarður kr. í ágúst sl. og í sama mánuði fyrir ári síðan var veltan 5,6 milljarðar kr.

Reyndar er þetta minnsta velta sem verið hefur með atvinnuhúsnæði í krónum talið í einum mánuði það sem af er þessu árinu en veltan hefur að meðaltali verið 6,7 milljarðar kr. í mánuði hverjum á árinu.

Þegar litið er til fjölda samninga á landinu öllu fyrstu níu mánuði ársins hafa samtals verið gerðir 982 kaupsamningar og afsöl um atvinnuhúsnæði, en á sama tíma í fyrra höfðu verið gerðir 864 samningar og hefur veltan á þennan mælikvarða því aukist um 14% á milli ára. Það sem af er ári nemur veltan rúmlega 60,6 milljörðum kr. og hefur hún aukist um 18% frá sama tímabili fyrra árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×