Viðskipti innlent

Útlánasafn Arion banka í lagi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höskuldur Ólafsson er forstjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson er forstjóri Arion banka.
Útlánasafn Arion banka er ekki ofmetið, samkvæmt niðurstöðu skoðunar sem Fjármálaeftirlitið gerði fyrr á árinu. Skoðunin beindist að virðismati lána á öðrum ársfjórðungi ársins 2011.

Í maí sendi Fjármálaeftirlitið Arion banka hf. skýrslu sem markaði lok á þessari umfangsmiklu skoðun á aðferðum bankans við virðismat útlána, gagnasöfnun og skjölun viðeigandi upplýsinga. Úrtakið í könnuninni náði til 43% af fyrirtækjalánum bankans, segir á vef Fjármálaeftirlitsins. Meginniðurstaða athugunarinnar var að ekki væru vísbendingar um að bókfært virði útlánasafns bankans væri ofmetið. Fjármálaeftirlitið setti fram ábendingar og gerði athugasemdir við verklag bankans við virðismat, upplýsingamiðlun innan bankans, skjalagerð, gagnaöflun og skráningu upplýsinga.

Innri endurskoðun bankans var falið að gera grein fyrir úrbótum bankans vegna athugasemda og ábendinga Fjármálaeftirlitsins fyrir lok september síðastliðins. Niðurstaða innri endurskoðunar var sú að Arion banki hf. hefði í aðalatriðum brugðist við öllum ábendingum og athugasemdum eftirlitsins. Enn er þó unnið að úrbótum innan bankans og mun því starfi ljúka á næstu mánuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×