Viðskipti innlent

Brim innleiðir orkustjórnunarkerfi frá Marorku

Brim.
Brim.
Í dag skrifuðu útgerðarfélagið Brim og Marorka undir samstarfssamning um innleiðingu orkustjórnunarkerfa frá Marorku í skipum Brims. Innleiðing orkustjórnunar hjá Brimi kemur til með að lágmarka olíunotkun félagsins við fiskveiðar og gera þær enn hagkvæmari, segir í sameiginlegri tilkynningu Brims og Marorku. „Brim er mjög framarlega í fiskveiðum og hefur yfir að ráða nýjum, öflugum og hagkvæmum skipum. Með þessum samningi er Brim fyrsta fiskiskipaútgerðin á Íslandi sem innleiðir heildstæða og markvissa orkustjórnun," segir í tilkynningunni.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, sagði í samtali við fréttastofu að það væru miklir hagsmunir í húfi, þar sem Brim keypti olíu fyrir ríflega einn milljarð á ári.

„Við fögnum því mjög að Brim séu að hefja innleiðingu orkustjórnunar og það er gaman að sjá íslenskan sjávarútveg beita kerfisbundnum aðferðum og fjárfesta í nýjustu tækni til að hámarka verðmætasköpun auðlindarinnar og lágmarka umhverfisáhrif fiskveiða. Einnig er vert að taka fram að það er gaman að sjá eitt af okkar öflugustu útgerðarfyrirtækjum innleiða SEEMP (Ship Energy Efficiency Management Plan) sem verður lögbundin krafa í framtíðinni. Þannig er Brim að skipa sér í forystu sjávarútvegsfyrirtækja í heiminum í orkustjórnun og umhverfismálum," sagði dr. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Marorku.

„Við í Brimi höfum alltaf lagt mikla áherslu á að stunda hagkvæmar og umhverfisvænar veiðar. Við trúum því að með því að fjárfesta í nýjum skipum og bestu tækni sem völ er á hverju sinni náum við aukinni hagkvæmni og göngum þannig betur um auðlindina. Við höfum fylgst lengi með Marorku og þeirra þróunarvinnu við orkustjórnun skipa og erum mjög spenntir fyrir því að innleiða þessa tækni í okkar skip núna," sagði Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×