Viðskipti innlent

Mótmælir fyrirhuguðum breytingum á fjársýsluskatti

Andri Ólafsson skrifar
Forsjtóri Straums fjárfestingabanka fundaði í morgun með fjármálaráðherra til að koma á framfæri mótmælum við fyrirhuguðum breytingum á fjársýsluskatti sem boðaðar eru í fjárlögum.

Sérstakur fjársýsluskattur var fyrst lagður á fjármálafyrirtæki í fyrra en fyrirmyndin er meðal annars sótt til Danmerkur þar sem sérstakur skattur var lagður á fjármálafyrirtæki sem eru undanþegin virðisaukaskatti.

Annars vegar var lagður 5,45% skattur á heildarlaunagreiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja auk 6% skatts á allan hagnað umfram einn milljarð.

Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi á að breyta þessu þannig að skattlagning launagreiðslna verður haldið áfram en hækkuð en skattlagning hagnaðar verður lögð af.

Skatttekjurnar eiga að hækka við þetta um 800 milljónir, úr 2,5 milljörðum í 3,3.

Hópur smærri fjármálafyrirtækja, á borð við Auði Capital, Straum og fleiri eru afar andvíg þessari breytingu segja hana skekkja samkeppnisstöðuna og færa skattbyrðina frá stærri fyrirtækjunum til þeirra minni.

Rökin eru annars vegar að skattlagning hagnaðar yfir milljarð leggst fyrst og fremst á stærri fyrirtækin. Og hins vegar eru meðallaun í smærri fjármálafyrirtækjum mun hærri en í stóru bönkunum og hlutfallslega myndu þau því þurfa að borga meira en bankarnir.

Þetta þykir smærri fyrirtækjum, sem eru reyndar engin smá fyrirtæki nema kannski í samanburði við bankanna, ósanngjarnt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×