Viðskipti innlent

Prentrisi kaupir Plastprent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Framtakssjóður Íslands og Kvos ehf. hafa skrifað undir samning um kaup Kvosar á Plastprenti ehf., sem er að fullu í eigu Framtakssjóðsins. Samningurinn er gerður með fyrirvörum, meðal annars um samþykki Samkeppniseftirlitsins og tekur ekki gildi fyrr en að lokinni umfjöllun þess.

Í apríl 2012 fól Framtakssjóðurinn Straumi fjárfestingarbanka að annast formlegt söluferli Plastprents. Söluferlið var opið öllum sem gátu sýnt fram á fjárfestingargetu, þekkingu og reynslu eða uppfylltu skilyrði um að geta talist fagfjárfestar. Aðilum sem sendu inn tilboð og uppfylltu skilyrði um þátttöku var boðið að halda áfram í öðru stigi söluferlisins. Í framhaldinu var gengið til viðræðna við Kvos og hafa samningar nú tekist.

Kvos er eignarhalds- og fjárfestingarfélag í prentiðnaði og skyldum rekstri. Kvos varð til 1. janúar 2006 sem móðurfélag prentsmiðjunnar Odda, Gutenbergs og Kassagerðarinnar. Plastprent hefur aftur á móti framleitt áletraðar plastumbúðir frá árinu 1957.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×