Tækniráðstefnan IFA í Berlín stendur nú sem hæst. Raftækjaframleiðandinn Sony kynnti í gær nýja vörulínu en þar á meðal er vatnsheld spjaldtölva og þrír spánýir snjallsímar.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur japanska fyrirtækinu ekki tekist að ryðja sér til rúms á spjaldtölvu- og snjallsímamarkaðinum. Þegar Sony kynnti Xperia-spjaldtölvuna í apríl á síðasta ári vonaðist fyrirtækið til að vera næst stærsti aðilinn á markaðinum.
Kindle Fire, spjaldtölva vefverslunarrisans Amazon, sem og spjaldtölvur Samsung hafa hins vegar veitt Sony harða samkeppni á síðustu misserum.
Nýjasta Xperia-spjaldtölvan, sem knúin er af Android-stýrkerfinu, er bæði vatns- og höggheld. Stjórnendur Sony segja að notendur sínir ættu að geta notað tölvuna í eldhúsinu eða við garðstörf, án þess að hafa áhyggjur af því að vökvi eða minniháttar hnjask eyðileggi spjaldtölvuna.
Viðskipti erlent