Viðskipti innlent

Allt verð lækkað í verslunum Byko

Byggingavöruverslunin Byko hefur kynnt nýja verðlagningarstefnu og hefur allt verð til almennra neytenda verið lækkað.

„Við höfum endurskoðað verðlagningu á öllum vörum og lækkað öll verð," segir Guðmundur Halldór Jónsson, forstjóri Byko. „Þá gerum við verðverndinni hjá okkur hærra undir höfði en með henni tryggjum við viðskiptavinum okkar lægsta verð á sömu eða sambærilegri vöru."

Guðmundur segir meðalverðlækkun vera á bilinu 10 til 15 prósent.

Guðmundur segir þetta rými fyrirtækisins til verðlækkana ekki vera vísbendingu um að það hafi hingað til okrað á viðskiptavinum sínum. Fyrirtækið hafi lagst í miklar hagræðingaraðgerðir, það hafi lagt niður afsláttarkerfi búðarinnar og þá geri fyrirtækið ráð fyrir því að sala aukist í kjölfar breytinganna.

Þá segir Guðmundur að harðnandi samkeppni á byggingavörumarkaði, meðal annars með væntanlegri innkomu Bauhaus-verslunarinnar, hafi knúið á um þessar breytingar. Búast má við því að lægra verð hjá Byko hafi áhrif á verð hjá samkeppnisaðilum fyrirtækisins, þar á meðal á verð Húsasmiðjunnar sem býður upp á verðvernd á sumum vörum. Lækki verð á vörum Byko má því búast við sambærilegum lækkunum á verði, í það minnsta, sumra vara hjá Húsasmiðjunni.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×