Viðskipti innlent

Þingmenn krefjast fundar með ÍLS

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Hópur þingmanna af Suðurlandi hefur óskað eftir fundi með stjórnendum Íbúðalánasjóðs til að krefjast þess að sjóðurinn leigi út tómar íbúðir á svæðinu. Stjórnarþingmaður segir það lögbundið hlutverk sjóðsins að mæta aukinni eftirspurn.

Íbúðalánasjóður á fimmtíu og þrjár íbúðir á Árborgarsvæðinu sem standa tómar. Sjóðurinn hefur ekki viljað leigja þær, þrátt fyrir mikla eftirspurn. Að sögn forstjóra sjóðsins eru íbúðirnar ekki í leiguhæfu ástandi og jafnframt væri það óheppilegt ef sjóðurinn færi í samkeppni við leigufélög á svæðinu sem sum eru viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs.

Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður, hefur nú, ásamt hópi þingmanna af svæðinu, óskað eftir fundi til að ræða málið við stjórnendur sjóðsins.

"Ég geri alvarlegar athugasemdir, og hef gert síðustu vikur, við þessa ákvörðun Íbúðalánasjóðs. Í fyrsta lagi held ég að þessi harðlína sjóðsins um að setja ekki fleiri íbúðir á markað, með þessum vinnureglum sem sjóðurinn setur sér sjálfur, búi bókstaflega til aukinn skort á leiguhúsnæði."

Hann segir það hlutverk sjóðsins að leigja út íbúðir.

"Í 9. gr. laga um Íbúðalánasjóð er kveðið á um það að það sé bókstaflega hlutverk sjóðsins samkvæmt lögum að leigja út íbúðir ef svo ber undir. Það er svo sérstaklega nefnt í einum lið 9. gr. að sjóðurinn eigi að taka tillit til aðstæðna á íbúðamarkaði. Ég tel það því lögbundið hlutverk sjóðsins, vegna aðstæðna og eftirspurnar, að setja mun fleiri íbúðir á leigumarkað í stað þess að sitja á þeim," segir Björgvin.

Björgvin segir það litlu skipta hvort íbúðirnar séu í óleiguhæfu ástandi, sjóðurinn þurfi hvort eð er að koma þeim í söluhæft ástand.

"Sjóðurinn situr á tugum íbúða. Þó það þurfi að setja eitthvað í að koma þeim í stand til að leigja þær út er það einfaldlega aukin fjárfesting sem sjóðurinn þarf hvort eð er að ráðast í," segir Björgvin.

"Það er fjárfesting. Það eru endurbætur á húsnæðinu sem sjóðurinn þarf hvort sem er að fara í til að koma þeim út síðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×