Viðskipti innlent

OECD: Ísland og Írland skáru mest niður í heilbrigðismálum

Írland og Ísland voru þau lönd innan OECD þar sem útgjöld til heilbrigðismála drógust mest saman árið 2010 eftir töluverðan árlegan vöxt frá aldamótum og fram til 2009.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD um stöðu heilbrigðismála hjá þeim löndum sem tilheyra samtökunum. Samdrátturinn á Írlandi nam 7,6% árið 2010 eftir meðaltalsvöxt upp á 8,6% árlega næstu níu árin þar á undan.

Á Íslandi nam samdrátturinn 7,5% árið 2010 eftir rúmlega 3% árlegan vöxt að meðaltali frá aldamótum. Næst á eftir þessum tveimur löndum hvað samdrátt varðar er svo Eistland en þar nam hann 7,3% árið 2010.

Fram kemur í skýrslu OECD að samdrátturinn á Írlandi hafi einkum falist í launalækkunum og lækkunum á lyfjakostnaði og sérfræðiaðstoð. Á Íslandi var hinsvegar einkum hagrætt í rekstrinum eins og hægt var í stað þess að fara í almennar launalækkanir. Einnig náðist nokkur árangur í lækkun lyfjakostnaðar.

Það er sammerkt næstum öllum löndum innan OECD að dregið var úr útgjöldum til heilbrigðismála árið 2010. Bráðabirgðatölur fyrir árið í fyrra benda til að sú staða sé óbreytt.

Þá kemur fram að þar að auki hafi framkvæmdum við ný sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir verið frestað í nokkrum löndum þar á meðal á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×