Viðskipti innlent

Hagnaður Marel minnkar milli ára

Hagnaður Marel eftir skatta á þriðja ársfjórðungi ársins nam tæplega 1,4 milljörðum kr. Þetta er nokkuð minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam rúmlega 1,7 milljörðum kr.

Tekjur félagsins minnkuðu um tæp 3% milli ára og gætir þar áhrifa af þeirri efnahagslægð sem almennt hefur verið á mörkuðum Marel í ár.

Theo Hoen forstjóri Marel kemur inn á þetta í tilkynningu um uppgjörið en þar segir hann m.a. markaðsaðstæður á árinu hafa verið krefjandi og niðurstöður síðustu tveggja ársfjórðunga voru undir væntingum félagsins.

"Miðað við aðstæður megum við þó vel við una. Vöxtur á árinu er umtalsverður, rekstrarhagnaður er nærri 9% af veltu og við gerum ráð fyrir að ná fyrri arðsemi aftur innan tíðar. Við teljum að eftirspurn sé að byggjast upp og það eru mörg spennandi verkefni í gangi sem við eigum von á að verði að pöntunum í náinni framtíð," segir Hoen í tilkynningunni.

"Marel er í lykilstöðu með öflugt alþjóðlegt sölu- og þjónustunet og með leiðandi lausnir á markaðnum. Við sjáum góðan árangur af nýju markaðsdrifnu skipulagi fyrirtækisins. Það gengur vel í fiskiðnaði og við væntum aukinnar eftirspurnar frá kjötiðnaði á næstunni. Á heildina litið gengur vel að framfylgja vaxtarstefnu félagsins og ég lít komandi ár bjartsýnum augum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×