Viðskipti innlent

Kaupa allt að 100 milljónir evra

Bankinn vinnur nú að áætlun sinni um hvernig losa megi gjaldeyrishöft.
Bankinn vinnur nú að áætlun sinni um hvernig losa megi gjaldeyrishöft. Fréttablaðið/pjetur
Seðlabanki Íslands hefur auglýst fyrsta krónuútboð sitt í tengslum við áætlun um afnám gjaldeyrishafta frá því í ágúst. Útboðið verður haldið 15. febrúar og er tvískipt. Annars vegar býðst bankinn til þess að kaupa evrur í skiptum fyrir krónur, samkvæmt fjárfestingarleiðinni svokölluðu, og hins vegar í skiptum fyrir verðtryggð ríkisskuldabréf.

Bankinn hyggst kaupa allt að 100 milljónir evra í útboðunum tveimur fyrir allt að 240 krónur fyrir evruna. Útboðsgengi ræðst þó vitaskuld af tilboðum þátttakenda.

Seðlabankinn mun standa fyrir gjaldeyrisútboðum þar sem hann kaupir erlendan gjaldeyri í skiptum fyrir krónur. Þannig gefst eigendum aflandskróna tækifæri til að nota þær til fjárfestinga hér. Á móti kaupir Seðlabankinn gjaldeyri til að áhrifin á gjaldeyrisforða bankans verði engin.

Í Morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka í gær kom fram að Seðlabankinn þyrfti að kaupa til baka sem nemur um 130 milljónum evra til að bæta sér upp útflæði úr gjaldeyrisforðanum. Vega þar þyngst gjaldeyrisútboð bankans og kaup á ríkisbréfum af erlendum aðila í desember fyrir 18,5 milljarða króna.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×