Íslenskur verðbréfagreinandi hjá Saxo Bank telur að hlutabréf í Manchester United séu ekki góð fjárfesting. Eigendur fótboltaklúbbsins hyggjast skrá bréf félagsins á markað, m.a. til að greiða niður skuldir.
Sverrir Sverrisson er íslenskur verðbréfagreinandi. Í pistli sem hann skrifar á vefsíðuna tradingfloor.com segist hann aldrei ætla að kaupa hlut í félaginu. Hann tekur reyndar fram að hann sé Arsenal aðdáandi en það breyti ekki þeirri staðreynd að bréfin séu slæm fjárfesting. Hann rekur nokkrar ástæður fyrir því.
Í fyrsta lagi er tekjuöflun félagsins mjög háð gengi liðsins. Sjónvarpstekjur og auglýsingatekjur lækka mjög hratt ef á móti blæs á vellinum.
Í öðru lagi er áhyggjuefni að stór hluti hagnaðar félagsins er tilkominn vegna skattainneignar.
Í þriðja lagi bendir Sverrir á að útgjöld félagsins séu að vaxa hraðar en tekjur. Leikmenn fara fram á hærri laun og ef tekjur vaxa ekki að sama skapi blasir við meiriháttar vandamál.
"Frábært félag en hörmuleg fjárfesting"
