Handbolti

Ólafur ekki með á HM

Ólafur Stefánsson verður ekki með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fer fram á Spáni í næsta mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HSÍ í dag. Þar segir að gömul hnémeiðsli hafi gert var við sig og að hann eigi enn langt í land með að komast í nægilega gott leikform til að keppa á stórmóti.

Fyrir stuttu var greint frá því að Alexander Petersson myndi ekki gefa kost á sér vegna meiðsla. Var því leitað til Ólafs til að fylla í skarð hans.

Ólafur hefur ekkert spilað síðan á Ólympíuleikunum í sumar og mun spila með félagsliði í Katar eftir áramót.

Tilkynning HSÍ:

"Ólafur Stefánsson hefur ákveðið að draga sig út úr landsliðshópnum fyrir HM á Spáni.

Undanfarna daga hefur Ólafur æft af kappi með það að leiðarljósi að komast í leikform fyrir HM en það hefur komið í ljós að það er of langt í land.

Við þessar æfingar hafa gömul hnémeiðsli gert vart við sig og treystir hann sér ekki til að taka þátt í jafn erfiðri keppni og HM í handbolta er."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×