Viðskipti innlent

Segir tryggingagjaldið ekki lækka nóg

Höskuldur Kári Schram skrifar
Samtök atvinnulífsins gagnrýna þá ákvörðun fjármálaráðherra að lækka tryggingagjaldið um einungis 0,1%. Þetta sé ekki í takt við minnkandi atvinnuleysi og muni neyða atvinnurekendur til að velta launahækkunum næsta árs út í verðlagið.

Atvinnurekendur gerðu ráð fyrir því að tryggingagjaldið myndi lækka um 0.75% um áramótin eða um sex milljarða króna. Lækkuninni var ætlað að standa undir hluta af umsömdum launahækkunum þann fyrsta febrúar á næsta ári.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þessi lækkun sé ekki í takt við tölur um minnkandi atvinnuleysi.

„Þetta þýðir að verðbólgan getur áfram verið á því róli sem að hún hefur verið. Hættan sé sú að við séum að festast í þetta 4 til 5 prósent verðbólgu. Það má lítið útaf bera til að það verði ekki ennþá hærra, 8 til 10%," segir hann.

Svigrúm fyrirtækja til að mæta hækkun launa sé því ekki eins mikið og því viðbúið að þau velti þeirri hækkun út í verðlagið. Það auki verðbólgu sem síðan kallar frekari hækkun launa.

Eru íslendingar komnir í þennan sama gamla vítahring launahækkana og verðbólgu?

„Því miður er stór hætta á því," svarar Vilhjálmur.

Laun á íslandi hafa hækkað þrefalt meira en á Norðurlöndum síðustu ár samkvæmt skýrslu OECD. Vilhjálmur segir hins vegar að þessar hækkanir hafi ekki skilað sér í auknum kaupmætti launþega.

„Þær sýna okkur að verðbólgan er meiri hér á landi en í okkar nágrannalöndum sem er bagalegt. Þessar launahækkanir sem við erum með langt umfram aðra eru ekki að nýtast í kaupmátt," segir Vilhjálmur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×