Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Túnis 34-24

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Laugardalshöll skrifar
Ísland vann öruggan sigur á Túnis 34-24 í seinni æfingaleik liðanna í undirbúningi fyrir Heimsmeistaramótið á Spáni. Ísland var mikið betra líkt og í fyrri leiknum í gær og sigurinn aldrei í hættu.

Það var jafnræði með liðunum í upphafi leiks og var Túnis einu marki yfir eftir rúmlega tíu mínútna leik 6-5.

Ísland skoraði þá fjögur mörk í röð og jók forskotið jafnt og þétt þar til munaði átta mörkum í hálfleik 19-11.

Frábær varnarleikur og hraðaupphlaup lögðu grunninn að forskotinu auk þess sem liðið gat skorað að vild í uppstilltum sóknarleik undir öruggri stjórn Snorra Steins Guðjónssonar.

Ísland náði fljótt ellefu marka forystu í seinni hálfleik, 24-13, sem var mesti munurinn á liðunum í leiknum.

Þá fyrst fór að örla á baráttu í varnarleik Túnis og var hreinlega grófur á löngum köflum.

Túnis náði að minnka muninn í sex mörk 28-22 áður en Ísland skoraði ekki í heilar níu mínútur.

Eftir að Ólafur Gústafsson kom Íslandi aftur á bragðið lagaðist leikurinn á lokakaflanum og Ísland vann eins og áður segir öruggan tíu marka sigur.

Erfitt er að meta íslenska liðið á þessu leikjum gegn Túnis. Eitt er ljóst og það er að Ísland er með mikið betra lið og leikgleði skein af hverju andliti í íslenska landsliðshópnum.

Ísland lék mjög vel. Vörnin var góð, sóknarleikurinn líka og hraðaupphlaupin voru frábær. Markvarslan var einnig að mestu leyti góð en Björgvin Páll varði virkilega vel síðasta korterið í leiknum.

Guðjón Valur var markahæstur þrátt fyrir að leika aðeins fyrri hálfleikinn en tók að auki vítaköstin í seinni hálfleik. Ólafur Gústafsson lék vel og ungu leikmennirnir sem eru að koma inn í liðið stóðu sig vel.

Snorri Steinn: Höldum okkur á jörðinni„Ég veit eiginlega ekki hvað mér á að finnast. Þetta voru full þægilegir leikir og ég hefði viljað fá meiri mótspyrnu. Þetta þróaðist út í miklar yfirburði hjá okkur. Ég veit ekki hvort þeir eru svona lélegir eða við svona góðir," sagði Snorri Steinn Guðjónsson eftir leikinn.

„Við erum nógu gamlir í þessu til að halda okkur á jörðinni og við vitum að Túnis er ekki með besta lið í heiminum, það vita það allir. Við tökum samt þetta jákvæða með okkur og þetta gefur okkur sjálftraust að vinna þetta lið svona sannfærandi. Við höfum oft verið mikið lengur í gang í okkar undirbúningi og þurft nokkra leiki til að fá allt til að virka. Þetta lítur vel út miðað við þessa leiki.

„Það eru engar dramatíska breytingar en auðvitað kemur alltaf einhver áherslu breyting með nýjum þjálfara. Maður finnur það alveg innan hópsins að það er eitthvað aðeins öðruvísi þó okkar leikaðferðir og grunnur sé byggður á því sem verið hefur undanfarin ár og eins og Aron hefur sjálfur sagt er engin ástæða til að gera rótækar breytingar á því.

„Það hafa komið nýir leikmenn inn og það tekur alltaf tíma að komast inn í hópinn en þeir eru einbeittir og ætla sér greinilega á HM," sagði Snorri Steinn.

Aron Kristjánsson: Bjóst við meiru frá þeim„Þetta var mikið auðveldara en ég átti von á. Ég bjóst við þeim sterkari. Þeir hafa verið með mjög sterk lið sem hafa verið mjög grimm varnarlega," sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari.

„Við bjuggumst meira við þeim í 5-1 og 3-2-1 varnarleik eins og þeir eru þekktastir fyrir eins og þeir spiluðu í gær. Svo spiluðu þeir 6-0 í dag og það er eitthvað sem við eigum eftir að fara betur yfir og slípa.

„Varnarleikurinn var mjög sterkur lengst af í báðum þessum leikjum og eins og sást þegar við vorum komnir með gott forskot að þegar menn eru ekki alveg á tánum og tilbúnir þá lítur varnarleikurinn illa út en þegar menn eru á tánum, hreyfanlegir og mæta mönnum framarlega þá erum við virkilega góðir varnarlega.

„Ég var mjög ánægður með 5-1 vörnina sem við lékum seinni hluta fyrri hálfleiks. Hún lagði grunninn að forskotinu sem við náðum.

„Það er erfitt að dæma liðið á þessum leikjum. Þeir léku ekki vel og virkuðu andlausir og keyrðu lítið í bakið á okkur. Þetta gefur okkur samt fyrirheit um að við séum sterkir varnarlega þegar við erum á fullu og hættulegir í hraðaupphlaupum.

„Sóknarlega erum við með fína fyrstu uppstillingu og við erum að vinna næstu menn inn hægt og bítandi og það verður vonandi orðið klárt þegar við komum á heimsmeistaramótið.

„Ég fékk viss svör frá vissum leikmönnum. Ég var mjög ánægður með Ólaf Gústafsson í miðjublokkinn í vörninni. Það eru viss atriði líka sóknarlega sem ég sá sem var jákvætt. Ég er langt kominn með hópinn en það eru nokkur sæti eftir," sagði Aron.

Guðjón Valur: Erum tiltölulega pressulausir„Mér fannst við vera að gera okkar hluti nokkuð vel burt séð frá því hvernig andstæðingurinn var. Ég á erfitt með að meta þeirra styrkleika fyrir utan fyrsta korterið í báðum leikjunum," sagði Guðjón Valur Sigurðsson.

„Ef maður lítur á liðið sem spilaði síðasta korterið í báðum leikjunum þá hefði maður ekki trúað að þessir menn myndu vera inni á fyrir hálfu ári síðan en þetta sýnir að tímarnir breytast og við þurfum að aðlagast.

„Við erum að koma nýjum ungum strákum í tiltölulega stór hlutverk en það er langur vegur frá því að spila æfingaleik hér á heimavelli pressulaus eða spila á stórmóti. Þess vegna þurfum við að nota næstu daga og æfingar vel til að koma þeim inn í þetta enn frekar.

„Það eru ótrúleg tækifæri sem felast í þessu og fá að prófa nýja hluti og við erum tiltölulega pressulausir. Það er erfitt að vera með sömu væntingar og fyrir síðustu stórmót. Ekki það að við séum að fara og gefast upp og sætta okkur við eitthvað minna en við höfum náð en við erum með yngra lið og reynsluminna lið og við erum villtari og útreiknanlegri heldur við höfum verið oft áður og það þarf ekki að vera slæmt," sagði Guðjón Valur.

Aron Pálmarsson: Munum alltaf eiga góða handboltamenn„Það var mikill vináttulandsleikja bragur yfir þessum leikjum og bæði lið að passa sig. Mér fannst samt við fá ágætlega út úr þessum leikjum. Við gátum rúllað á öllum mönnum og spilað tvær varnir og farið í gegnum öll kerfin. Ég er ágætlega sáttur við þennan undirbúning,“ sagði Aron Pálmarsson eftir sigurinn í dag.

„Það eru mjög margir nýir að koma inn í þetta og þeir eru að standa sig mjög vel. Þeir eru fljótir að koma inn í kerfin og eru tilbúnir að hlusta og gera þetta á fullu og það er fyrir öllu. Við vitum að við munum alltaf eiga sterka handboltamenn og eiga unga og efnilega leikmenn og ég er ánægður með Aron að gefa þeim tækifæri í þessum leikjum og þeir nýttu tækifærið ágætlega.

„Aron kemur með sínar áherslur en hann er að byggja á þessum grunni sem er skiljanlegt. Hann vinnur þetta mjög vel með leikmönnum og hlustar mikið sjálfur og svo erum við tilbúnir að hlusta á þau atriði sem hann kemur með.

„Það eru ekki bara breytingar varnarlega, líka sóknarlega. Það eru einhver smá atriði sem samt nýjungar en hann hefur haft fáa daga með okkur og erfitt fyrir nýjan þjálfara að koma inn og ætla að gjörsamlega breyta öllu. Þá held ég líka að menn yrðu ekkert allt of sáttir í liðinu en mér finnst hann hafa komið mjög vel inn í þetta.

„Ég er ánægður með hvað varnarleikurinn kom snemma inn. Hann var góður eftir 10 mínútur í gær. Það hefur verið okkar Akkilesarhæll að koma vörninni inn og það hefur verið að gerast korteri fyrir mót en núna finnst mér hún líta vel út og við eigum eftir að geta nýtt okkur að geta breytt í 5-1 líka.

„Við vitum að við erum frábært lið þó það vanti góða leikmenn. Við förum með fulla trú á þessu. Það eru svo miklir sigurvegarar í þessum hóp og við höfum verið í heimsklassa síðustu ár og erum með það mikið af góðum leikmönnum að við eigum að setja þá kröfu á okkur að fara sem lengst og eins og við segjum fyrir öll mót að lenda í tveimur efstu sætunum í riðlinum og svo kemur annað í ljós, við höldum okkur við það,“ sagði Aron að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×