Handbolti

Aron Pálmars: Vonandi verður fært í Höllina á morgun

Elvar Geir Magnússon í Laugardalshöllinni skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Mynd/Stefán
Aron Pálmarsson skoraði fimm mörk fyrir Ísland sem vann sigur gegn Túnis 33-26 í æfingaleik í Laugardalshöll í kvöld.

„Við vorum komnir með mikla forystu og það var erfitt að pumpa sig upp fyrir síðasta korterið. Mér fannst þeir ekki koma 100% inn í þetta og við eigum ekki að leyfa neinum að koma með hangandi haus á okkar heimavöll," sagði Aron.

„Við kláruðum þetta í fyrri hálfleik og gerðum það vel. Þegar lið eru komin 15 mörkum yfir gerist það sjálfkrafa kannski að menn slaka á. Þeir voru ekki það sterkir í dag að þeir næðu að snúa því við."

Liðin mætast aftur 13:30 á morgun svo það er skammur tími til stefnu.

„Ég held að morgunmaturinn sé alveg að byrja hjá okkur," sagði Aron kíminn. „Það er svefn og svo bara strax aftur leikur. Ég vona að bæði lið mæti stemmdari á morgun og það verði meiri hörkuleikur. Það væri líka gaman fyrir áhorfendur að fá jafnari leik."

Laugardalshöllin var talsvert frá því að vera full í kvöld.

„Vonandi verður fært í Höllina. Ég vona að færðin hafi verið ástæðan fyrir því að við fengum ekki fleiri áhorfendur," sagði Aron Pálmarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×