Handbolti

Aron Pálmarsson kjörinn íþróttamaður ársins

Aron Pálmarsson átti ótrúlegt ár með Kiel og íslenska landsliðinu.
Aron Pálmarsson átti ótrúlegt ár með Kiel og íslenska landsliðinu. mynd/daníel
Handknattleiksmaðurinn Aron Pálmarsson var í kvöld kjörinn íþróttamaður ársins árið 2012 í kjöri samtaka íþróttafréttamanna. Aron fékk yfirburðakosningu en þetta er í fyrsta skipti sem hann hlýtur þessa nafnbót.

Hafnfirðingurinn ungi átti stórkostlegt ár þar sem hann stimplaði sig inn sem einn besti handboltamaður heims. Hann er í lykilhlutverki hjá þýska félaginu Kiel sem vann alla titla á síðustu leiktíð og náði þeim einstaka árangri að fara í gegnum heilt tímabil í sterkustu deild heims án þess að tapa leik.

Aron fór síðan hamförum með íslenska handboltalandsliðinu á Ólympíuleikunum. Þar var hann valinn í úrvalslið leikanna og eru margir á því að Aron hafi verið besti handboltamaður leikanna.

Listinn í ár er fjölbreyttur en alls fengu 20 íþróttamenn atkvæði. 23 meðlimir eru í samtökum íþróttafréttamanna og nýttu þeir allir atkvæðisrétt sinn.

Flestir handboltamenn fengu atkvæði, eða fimm, en aðeins Aron náði inn á topp tíu listann. Þrír knattspyrnumenn eru aftur á móti á topp tíu listanum í ár.

Jón Margeir Sverrisson endaði í þriðja sæti kjörsins en það er besti árangur fatlaðs íþróttamanns í þessu kjöri.

Svo er kynjaskptingin næstum jöfn en níu konur fengu atkvæði í kjörinu að þessu sinni.

Svona fór kjörið:

1. Aron Pálmarsson, handbolti - 425 stig.

2. Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttir - 279

3. Jón Margeir Sverrisson, íþróttir fatlaðra - 267

4. Gylfi Sigurðsson, fótbolti - 149

5. Þóra B. Helgadóttir, fótbolti - 122

6. Auðunn Jónsson, kraftlyftingar - 74

7. Alfreð Finnbogason, fótbolti - 65

8. Ásgeir Sigurgeirsson, skotfimi - 61

9. Íris Mist Magnúsdóttir, fimleikar - 58

10. Kári Steinn Karlsson, frjálsíþróttir - 55

11. Guðjón Valur Sigurðsson, handbolti - 51

12. Ragna Ingólfsdóttir, badminton - 27

13. Jón Arnór Stefánsson, körfubolti - 25

14. Aðalheiður Rósa Harðardóttir, karate - 7

15.-17. Guðný Jenný Ásmundsdóttir, handbolti - 3

15.-17. Sarah Blake Bateman, sund - 3

15.-17. Alexander Petersson, handbolti - 3

18.-19. Helena Sverrisdóttir, körfubolti - 2

18.-19. Ólafur Stefánsson, handbolti - 2

20. Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttir - 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×