Handbolti

Alfreð svekktur með kjörið á liði ársins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands- og Evrópumeistara Kiel, er ekki sáttur við kjör þýskra íþróttafréttamanna á liði ársins. Kiel hafnaði í 5. sæti í kjörinu.

Kiel fór ósigrað í gegnum árið 2012 og vann því allar keppnir sem liðið tók þátt í. Ljóst er að árangur liðsins verður ekki toppaður.

„Mér finnst það synd að frammistaða okkar er ekki meira metin en raun ber vitni," sagði Alfreð í samtali við Kieler Nachrichten.

Róðrarsveit Þýskalands sem vann gullverðlaun á Ólympíuleikunum í London hlaut 3003 stig í fyrsta sæti í kjörinu og þýskt blakpar, sem einnig vann gull í London, hafnaði í öðru sæti með 2603 stig.

Þýska landsliðið í hokkí sem einnig vann gullverðlaun í London varð í 3. sæti með 2071 stig og Þýskalandsmeistarar Dortmund í knattspyrnu í 4. sæti með 1965 stig. Þá kom Kiel með 1401 stig.

„Með fullri virðingu fyrir liðunum sem höfnuðu fyrir ofan okkur í kjörinu er Kiel að mínu mati lið ársins. Því miður fyrir okkur hitti afrek okkar á Ólympíuár."

1500 íþróttafréttamenn í Þýskalandi tóku þátt í kjörinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×