Viðskipti innlent

Gera alvarlegar athugasemdir við FME- segja sérreglur gilda um Sigurð

Sigurður Jóhannesson er lengst til vinstri. Myndin er tekin árið 2010, þegar Sigurður var formaður stjórnar.
Sigurður Jóhannesson er lengst til vinstri. Myndin er tekin árið 2010, þegar Sigurður var formaður stjórnar.
Samtök atvinnulífsins gera alvarlega athugasemd vegna tilkynningar Fjármálaeftirlitsins frá því í gær um fyrrverandi stjórnarmann Stapa lífeyrissjóðs.

Þar var sagt frá því að Fjármálaeftirlitið hefði gert Sigurði Jóhannessyni að hætta störfum sem stjórnarmaður hjá Stapa lífeyrissjóði. Ástæðan var sú að hann taldist ekki búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins er það því haldið fram að sérreglur virðist gilda um Sigurð, en FME hefur víst ekki kannað hæfi varamanna í stjórnum að sögn Samtaka atvinnulífsins. Svo segir í tilkynningu samtakanna að hann sé fullkomlega hæfur til starfanna ólíkt mati FME. Orðrétt segir í tilkynningunni:

„Sigurður Jóhannesson, framkvæmdastjóri SAH afurða, var tilnefndur af hálfu Samtaka atvinnulífsins til stjórnar lífeyrissjóðsins Stapa um tveggja ára skeið frá aðalfundi 2010 til jafnlengdar 2012.

Aðalfundurinn var haldinn þann 8. maí og kom þá nýr stjórnarmaður til starfa í stað Sigurðar.

Breytingin var tilkomin að ósk Sigurðar sem féllst hins vegar á að SA tilnefndi hann sem varamann í stjórn lífeyrissjóðsins. Það er því rangt sem haldið er fram í tilkynningu FME frá 18. desember að Sigurði Jóhannessyni hafi verið vikið úr stjórn Stapa, honum var hins vegar vikið sem varamaður úr stjórninni.

SA tilnefna árlega vel á þriðja tug karla og kvenna til setu í stjórnum lífeyrissjóða og annan eins fjölda sem varamenn. Fram til þessa hafa einungis stjórnarmenn lífeyrissjóðanna þurft að uppfylla hæfisskilyrði Fjármálaeftirlitsins og hafa varamenn í stjórnunum hvorki verið kallaðir til hæfisprófs né sérstakra námskeiða á vegum FME. Ekki er heldur vitað til þess að slíkt hafi staðið til. FME hefur sent bréf til varastjórnarmanna þar sem þeir eru beðnir um að útskýra af hverju þeir teldu sig hæfa til slíkra starfa og gefið út staðfestingu á hæfi þeirra að fengnu svari.

Sú ákvörðun FME að víkja Sigurði úr varastjórn virðist merki um sérreglu gagnvart honum þar sem hann er eini varastjórnarmaðurinn sem vitað er um að gerð hafi verið krafa um að standist hæfismat stjórnarmanna.

Samtök atvinnulífsins telja að Sigurður sé fullkomlega hæfur til umræddra starfa, fjölmargir stjórnarmenn fjármálafyrirtækja hafa gengist undir hæfispróf FME oftar en einu sinni. Sigurður hugði ekki á áframhaldandi stjórnarsetu og því virtist ekki ástæða til þess að eyða tíma hans eða hæfnismatsnefndarinnar í þá vinnu, í ljósi þess að sem gilt hefur almennt um varamenn í stjórnum lífeyrissjóða."

Þess má geta að Sigurður var formaður stjórnar Stapa lífeyrissjóðs árið 2010.


Tengdar fréttir

Stjórnarmanni vikið úr stjórn Stapa út af þekkingar- og reynsluleysi

Fjármálaeftirlitið hefur gert Sigurði Jóhannessyni að hætta störfum sem stjórnarmaður hjá Stapa lífeyrissjóði samkvæmt tilkynningu sem finna má á vef FME. Ástæðan var sú að hann taldist ekki búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×