Handbolti

Karen: Í þessari viku vorum við bara of langt frá þessum liðum

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. Mynd/Stefán
Karen Knútsdóttir var ákveðin í kvöld og fann sig betur en í fyrstu tveimur leikjunum. Hún skoraði þrjú mörk og var valin besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum af mótshöldurum.

Íslenska liðið byrjaði leikinn illa og lenti 0-4 undir eftir sjö mínútna leik. „Það var ekkert búið þótt að þær skoruðu fyrstu fjögur mörkin því við gátum alveg skorað fjögur mörk í röð eins og þær. Auðvitað er betra að byrja vel, ég segi það ekki. Það gerði það að verkum að við vorum að elta allan leikinn og Rússlandi er bara of gott lið til að landa svona mikið undir á móti og þurfa að elta allan tímann," sagði Karen.

„Þetta eru þvílík vonbirgði en við vorum bara lélegri á öllum sviðum í dag. Þetta eru margfaldir meistarar og vita alveg hvað er að vinna. Þær eru fara svolítið á hefðinni í kvöld en við hefðum þurft að fara á karakternum," sagði Karen.

„Möguleikar okkar lágu fyrr í riðlinum en fyrst að þetta spilaðist svona þá var þetta úrslitaleikur á móti Rússum. Auðvitað ætluðum við að gera betur en þær voru einfaldlega bara betri en við í dag," sagði Karen sem var valin best í íslenska liðinu.

„Það hefur enga þýðingu fyrir mig að fá þessi verðlaun því maður á það ekki skilið eftir svona leik. Það er mitt mat ef að við ætlum að reyna að nálgast þessi lið þá þurfum við að vera fljótari upp völlinn," sagði Karen.

„Við þurfum að koma boltanum hratt í leik og nýta annað tempó. Við getum ekki verið að skora 25 plús mörk í uppsettum sóknarleik. Það er einfaldlega of erfitt. Þær eru 190 sm og standa bara inn á sex metrunum og bíða eftir okkur," sagði Karen.

„Við vorum að láta það trufla okkur í fyrsta leiknum hvað þær voru að koma út til að negla okkur. Við vorum hikandi í sendingum og þá var ekkert flæði sem þýðir að við erum ekkert að opna varnirnar. Við þurfum að fá hratt spil sem er það sem hefur skilað mörkum hingað til. Það var engan veginn að gerast núna," sagði Karen.

„Það hefði verið gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að komast áfram upp á næsta HM og næsta HM því þá hefðum við fengið auðveldari andstæðinga í umspilinu. Við vorum að spila fína vörn í fyrstu tveimur leikjunum og voru með góða markvörslu. Til þess að eiga möguleika þá þurfum við að geta keyrt upp völlinn og fá boltann fyrr í leik. Þá koma auðveldari mörk og við getum notað hraðann sem við búum yfir. Í þessari viku vorum við bara of langt frá þessum liðum," sagði Karen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×