Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan aukist í 4,5%

Greining Arion banka spáir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í nóvember. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan hækka og fara í 4,5% í nóvember samanborið við 4,2% í október. Bráðabirgðaspá greiningarinnar gerir ráð fyrir 0,4% hækkun VNV í desember, 0,2% hækkun í janúar og svo 0,7% hækkun í febrúar.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að eins og svo oft áður mun krónan spila stóra rullu á næstu mánuðum en töluverð gengisáhrif komu fram í síðustu verðmælingu Hagstofunnar (um 0,3% til hækkunar VNV).

„Við teljum að áhrifin af um 8% lækkun krónunnar frá því í ágúst muni halda áfram að koma fram í VNV á næstu mánuðum. Þó má ekki gleyma að krónan hefur styrkst nokkuð á allra síðustu dögum og haldi sú þróun áfram mun það vissulega draga eitthvað úr verðþrýstingi," segir í Markaðspunktunum.

„Eins og hér er vikið að teljum við að ef veiking krónunnar gengur ekki til baka sé útlit fyrir að verðbólgan verði á bilinu 4-4,5% á næstu mánuðum. Þó mun verða áhugavert að sjá hvort að aukin umsvif og hækkandi verð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu fari ekki að skila sér í auknum mæli í VNV.

Reyndin hefur verið sú að raunvextir húsnæðis og nokkur lækkun á húsnæðisverði úti á landi hafa sett strik í reikninginn. Því gerum við ráð fyrir hóflegum hækkunum á húsnæðisliðnum á næstu mánuðum, a.m.k. þar til annað kemur í ljós."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×