Viðskipti innlent

Segir ummæli Sigríðar mjög óheppileg: Málið verður rætt við þingmenn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir ummæli Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns velferðanefndar Alþingis, afar óheppileg. Upplýsingar sem hún hafi gefið eigi ekki að koma fyrst fram í viðtölum við fjölmiðla.

Sigríður Ingibjörg sagði í morgun að breyta þyrfti skilmálum á skuldabréfum ríkissjóðs á þann veg að þau yrðu uppgreiðanleg. Á sama tíma fór fram fundur í ríkisstjórn um stöðu sjóðsins. Páll gagnrýnir ummæli Sigríðar Ingibjargar og segir að nauðsynlegt hafi verið að loka fyrir viðskiptin.

„Þetta er einfaldlega eitthvað sem við þurftum að gera. Vegna þess að í ljósi ummæla svona áhrifaríks aðila varðandi ákvarðanatöku í málefnum Íbúðalánasjóðs þá virtist okkur leika vafi á því að það væri jafnræði milli aðila á markaði," segir Páll. „Og það er grundvallarregla varðandi viðskipti í Kauphöll að það á að ríkja jafnræði meðal þeirra sem koma að þeim viðskiptum og þegar við töldum leika vafa á því í ljósi þessara ummæla að þá ákváðum við að stöðva pörun viðskipta í Kauphöllinni," bætir hann við.

Aðspurður um það hve lengi lokunin muni vara segir hann að Kauphöllin muni fara yfir þær tilkynningar sem berast frá Íbúðalánasjóði og stjórnvöldum. „Og þegar við teljum að það sé tryggt að allir aðilar hafi jafnar upplýsingar þá munum við opna. Við metum það bara í ljósi þeirra upplýsinga sem munu berast," segir hann.

Hann gagnrýnir ummæli Sigríðar Ingibjargar. „Þau eru mjög óheppileg. Það er sjálfsagt eitthvað sem við þurfum að fara yfir með þingmönnum og stjórnvöldum að gæta sín þegar kemur að ummælum sem varða skráð verðbréf," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×