Viðskipti innlent

Kári segir skuld við hluthafa útskýra neikvætt eigið fé

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, segir að skuldir við móðurfélag fyrirtækisins skýri að mestu neikvætt eigið fé. Hann er rólegur yfir taprekstri og segir fyrirtækið hafa trausta eigendur sem styðji vel við bakið á því. Þá segir hann blaðamenn skorta skilning á líftæknigeiranum.

Eins og fréttastofa greindi frá í morgun er Kári fullur sjálfstrausts þrátt fyrir niðurstöðu ársins 2011, en Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að ÍE hefði tapað jafnvirði 1.700 milljóna í fyrra og að eigið fé væri neikvætt upp á 50 milljónir dollara, jafnvirði 6 milljarða króna.

Kári segir að skýringin á neikvæðri eiginfjárastöðu sé að mestu vegna skuldar við hluthafa ÍE. „Þessar tölur í ársreikningi vísa að mestu til skuldastöðu innan samstæðu. Íslensk erfðagreining er í eigu hollensks fyrirtækis, sem er í eigu bandarísks eignarhaldsfélags, Saga Investments. Og meirihlutinn af þessari skuld, ef ekki öll þessi skuld er við móðurfélagið. Sú skuld skiptir því ekki miklu máli. Það veldur mér hins vegar áhyggjum hvað það virðist vera erfitt fyrir ykkur blaðamenn í íslensku samfélagi að búa til hjá ykkur skilning á líftækniiðnaðinum þar sem meirihluti verðmætasköpunar er í myndun hugverka, eða intellectual property og ekki endilega í því að byggja upp það sem er áþreifanlegt, eða sjóði á hverjum tíma fyrir sig. Hjá okkur eru hlutirnir í svipuðu fari. Okkur gengur vel við það verkefni sem er að gera uppgötvanir sem má nota við að gera greiningartæki og lyf og okkur líður vel á þessum tímapunkti," segir Kári. Hann segir að fyrirtækið sé með trausta eigendur sem hafi stutt dyggilega við bak þess í sextán ár.

Kári segir að ekki sé hægt að fjalla um ÍE eins og hver önnur fyrirtæki. „Ef þið ætlið að fjalla um Íslenska erfðagreiningu með sama hætti og útgerðarfyrirtæki við Eyjafjörð, þá fáið þið ekki mjög rétta mynd af stöðunni. Verðmæti fyrirtækisins liggja í þeim hugverkum sem fyrirtækið býr til," segir hann.

Fram kemur í ársreikningi ÍE að áframhaldandi fjármögnun velti að stórum hluta á núverandi hluthöfum, að því er Viðskiptablaðið greinir frá. Þá sé gert ráð fyrir að ÍE hafi rekstrarfé fram á fyrsta ársfjórðung næsta árs en að miklu leyti þurfi að treysta á fjármöngun eigenda út árið 2013.

Rekstur deCode, fyrrverandi móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar ehf., lenti í hremmingum eftir hrun og í nóvember 2009 var Íslensk erfðagreining seld til félagsins Saga Investments LLC. Saga Investments er fjárfestingarfélag í eigu Polaris Venture Partners og Arch Venture Partners, sem eru þekktir fjárfestar í Bandaríkjunum á sviði líftækni.


Tengdar fréttir

Íslensk erfðagreining tapar um tveimur milljörðum

Íslensk erfðagreining tapaði á annan milljarð króna á síðasta ári og er með neikvæða eiginfjárstöðu samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins í dag. Þar segir að Íslensk erfðagreining hafi tapað tæpum 14 milljónum dollara, eða á annan milljarð króna, á árinu 2011 samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×