Viðskipti innlent

Framtakssjóðurinn seldi fyrir 2,7 milljarða

Brynjólfur Bjarnason er framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins.
Brynjólfur Bjarnason er framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins.
Framtakssjóður Íslands hefur selt sjö prósenta hlut í Icelandair  fyrir 2,7 milljarða króna, en hann á eftir söluna ríflega tólf prósent hlut í félaginu. Gengi bréfa í Icelandair hefur hækkað mikið eftir að rekstur þess var endurskipulagður og það skráð á markað á nýjan leik.

Tilkynnt var um sölu Framtakssjóðs Íslands á ríflega sjö prósent hlut í Icelandair Group með flöggun í kauphöllinni í morgun, en sjóðurinn á eftir söluna enn tólf prósent hlut í félaginu. Sjóðurinn fékk 2,7 milljarða króna fyrir hlut sinn, en gengi bréfa Icelandair er nú 7,65 og hefur það hakkað um tæplega 1,6 prósent í viðskiptum í dag.

Gengi bréfa Icelandair hefur hækkað mikið frá því rekstur þess var endurskipulagður í kjölfar hrunsins, en nýir hluthfar, meðal annars Framtakssjóðurinn og fleiri fjárfestar, keyptu hluti í félaginu á genginu 2,5 fyrir tæplega þremur árum. Frá þeim tíma hefur gengið hækkað jafnt og þétt og er nú 7,65, eins og áður sagði, eða sem nemur ríflega þreföldu gengi bréfa félagsins eftir endurskipulagningu. Ekki liggur fyrir enn hvaða fjárfesta keyptu öll bréfin, en búast má við því að flagganir um einstök viðskipti, síðar í dag eða á morgun, muni skýra það  að einhverju leyti.

Rekstur Icelandair hefur gengið vel undanfarin misseri. Þannig hagnaðist Icelandair hlutfallslega mest fjögurra helstu norrænu flugfélaganna á þriðja ársfjórðungi, eða fjórum sinnum meira en SAS, svo dæmi sé tekið. Þannig varð hlutfall hagnaðar af veltu Icelandair, rúm 16 prósent,  tæp 15 hjá Norwegian, tæp átta prósent hjá Finnair og aðeins 3,9 prósent hjá SAS, en það félag tilkynnti um róttækar björgunaraðgerðir í morgun, þar á meðal uppsagnir á 800 starfsmönnum og lækkun launa starfsmanna um 15 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×