Viðskipti innlent

Mikil eftirspurn eftir hlutabréfum Eimskip

BBI skrifar
Ánægð verkakona Eimskip.
Ánægð verkakona Eimskip. Mynd/Teitur
Meira en fimmföld umframeftirspurn var eftir hlutabréfum Eimskipafélags Íslands hf. á almennu útboði sem lauk í dag.

Útboðsgengið var fyrirfram ákveðið, kr. 208 á hlut. Samtals bárust áskriftir fyrir yfir ellefu milljarða króna eða sem nemur yfir fimmfaldri umframeftirspurn m.v. þann 5% hlut sem boðinn var til sölu af Landsbanka Ísland hf., ALMC hf. og Samson eignarhaldsfélagi ehf.

Í ljósi mikillar umframeftirspurnar mun félagið, líkt og fram kom í skráningarlýsingu þess, auka við framboðið og selja 6.000.000 eigin hluti, eða sem nemur 3% af útgefnu hlutafé. Samtals eru því seldir 16.000.000 hlutir eða sem nemur 8% af útgefnu hlutafé félagsins.

Almenna útboðið sem lauk í dag kemur til viðbótar við lokað útboð sem lauk fimmtudaginn 26. október síðasta þar sem 20% hlutur var seldur. Þar áður hafði Lífeyrissjóður Verzlunarmanna keypt 14% hlut af Landsbanka Íslands og fleiri sjóðum. Því hefur samtals 42% hlutur í félaginu skipt um hendur síðustu daga í tengslum við skráningu félagsins á aðalmarkað NASDAQ OMX Iceland hf. Söluandvirði þessa hlutar er samtals yfir 17 milljarðar króna.

Forstjóri Eimskip, Gylfi Sigfússon, segir ánægjuefni hve vel félaginu var tekið og hlakkar til að starfa með nýjum hluthöfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×