Viðskipti innlent

Þorsteinn Már: Stjórnvöld og fólk í sjávarútvegi vinni saman

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
„Ég hef ekki staðið frammi fyrir jafn krefjandi verkefni í rekstri Samherja síðastliðin 25 ár og nú," segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í tilkynningu vegna rekstrarárs í fyrra, sem birt var á vef Samherja 2. nóvember. Samherji, að meðtöldum dótturfélögum, hagnaðist um 8,8 milljarða króna í fyrra, sem er besta rekstrarafkoma í sögu félagsins.

Þorsteinn Már segir í tilkynningunni að aldrei hafi verið brýnna að stjórnvöld og þeir sem starfi í sjávarútvegi standi saman. „Efnahagsástandið í Evrópu veldur því að viðskiptavinir okkar hafa ekki jafn greiðan aðgang að fjármögnun og áður auk þess sem neytendur hafa snúið sér að ódýrari afurðum í einhverjum mæli. Við þetta bætist mjög mikil aukning þorskkvóta í Barentshafi og gríðarlegur vöxtur fiskeldis. Þess vegna hafa verð á mörkuðum farið lækkandi og birgðir eru að aukast. Því hefur aldrei verið brýnna en nú fyrir sjávarútveg á Íslandi að stjórnvöld hér heima og þeir sem í sjávarútvegi starfa standi saman og vinni sameiginlega að lausn þeirra verkefna sem framundan eru," segir Þorsteinn Már.

Rúmlega 60 prósent af starfsemi Samherja og dótturfélaga er erlendis, en félög Samherja eru með starfsemi í ellefu löndum.

Meginþunginn í starfsemi Samherja hér á landi er á Eyjafjarðarsvæðinu, þ.e. á Akureyri og Dalvík, en höfuðstöðvarnar eru á Akureyri. Samtals vinna um 350 starfsmenn í landvinnslu Samherja á Eyjafjarðarsvæðinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×