Viðskipti innlent

Alþjóðleg vísitala sýnir minnkandi velmegun á Íslandi

Velmegun á Íslandi fer minnkandi. Þetta kemur fram í árlegri mælingu velmegunarvísitölunnar hjá Legatum stofnuninni.

Ísland fellur niður í 15. sætið í þessari mælingu í ár eftir að hafa verið í 12. sæti undanfarin tvö ár. Vísitalan nær til 144 þjóða í heiminum og það eru Norðurlandaþjóðirnar sem raða sér í toppsætin í þessari vísitölu. Noregur er í fyrsta sæti, Danmörk í öðru sæti og Svíþjóð í þriðja sæti.

Ísland mælist á toppinum hvað eitt atriði varðar en það er öryggi almennings. Hinsvegar eru við í 61. sætinu þegar kemur að efnahagsmálum.

Athygli vekur að Bandaríkin detta í fyrsta sinn af topp tíu listanum og eru í 12. sætinu í ár.

Legatum stofnunin hefur gefið þessa vísitölu út undanfarin sex ár. Hún mælir meðal annars efnahagslegan styrk þjóða, menntun, heilsu, öryggi og stjórnarfar. Ísland var ekki tekið með inn í þessa vísitölu fyrr en árið 2010 og þá lenti landið í 12. sæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×