Viðskipti innlent

Of margir bankastarfsmenn á Íslandi

Magnús Halldórsson skrifar
Þrátt fyrir að Íslendingar vinni meira en nágrannar þeirra í öðrum löndum skilar það sér ekki í meiri lífsgæðum. Þá eru bankastarfsmenn hér á landi muni fleiri en í nágrannalöndum, að því er segir í nýrri skýrslu um íslenskan efnhag. Styrkja þarf þekkingariðnað og auka framlegð í lykilgreinum.

Ráðgjafafyrirtækið McKinsey hefur unnið að ítarlegri úttekt á íslensku hagkerfinu, og var hún formlega kynnt á nítjándu hæð turnsins á Höfðatorgi í dag.

Meginniðurstöður skýrslunnar eru reyndar margþættar en tekið er þó sérstaklega út

að hér á landi væri 20% minni framleiðni en í nágrannalöndum, þrátt fyri að við værum að vinna meira þá myndum við framleiða minna og græða minna. Sagt er mikilvægt að styrkja umgjörð fyrir þekkingariðnað ýmis konar, svo sem nýsköpun og þjónustu, með það að markmiði að hagvöxturinn framtíðarinnar byggji á þessari stoð.

Fjallað er ítarlega um ýmsar hliðar hagkerfisins, þar á meðal bankakerfið. Íslenska bankakerfið er nú, eftir hraða minnkun við hrunið, með minnsta bankakerfi Norðurlanda, en það er tæplega tvöfalt minna en það danska miðað við landsframleiðslu. Þrátt fyrir það er starfsmannafjöldi á hverja þúsund íbúa í bankakerfinu langsamlega mestur hér á landi, en ríflega þrefalt fleiri vinna í bönkum hér hlutfallslega heldur en í Svíþjóð, svo dæmi sé tekið.

Svipaða sögu er að segja af smásölugeiranum, en fermetrafjöldi á hvern íbúa er næstum tvöfalt meiri hér en að meðtali á Norðurlöndunum.

Atli Knútsson, starfsmaður hjá McKinsey í Danmörku, segist vonast til þess að skýrslan, sem fyrirtækið vann upp á sitt einsdæmi og ekki gegn greiðslu frá neinum, verði vonandi gott innlegg í umræðu um framtíðarsýn efnahagsmála.

„Það er alveg klárt að ef að Ísland á að ná svona góðri hreyfingu á efnahagslífið þá þarf breiðari samstöðu um svona kjarnamál. Þetta er okkar innlegg inn í það. En ég held það sé líka þannig að aðrir þurfi að taka boltann áfram," segir Atli Knútsson, ráðgjafi hjá McKinsey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×