Viðskipti innlent

Vaxtahækkun myndi sökkva hagkerfinu

BBI skrifar
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Ef Seðlabankinn ætlar að halda áfram að hækka vexti þá sekkur bara hagkerfið. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að hvorki fyrirtæki, heimili né ríkissjóður ráði við þá leið að hækka vexti meira, en þrír fjármálasérfræðingar sem blaðið ræddi við telja að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti fyrir áramót, jafnvel um hálft prósent og bregðast þannig við verðbólguþrýstingi.

Fertugasta þingi ASÍ lauk í gær og samþykkti þingið nokkrar ályktanir m.a. þar sem verulegum áhyggjum er lýst yfir vegna þróunar kjara- og atvinnumála. Í ályktuninni segir að ljóst sé að almennar launahækkanir hafi ekki haldið í við verðbólgu. Í ályktuninni kemur einnig fram að alvarlegt sé að endurreisn atvinnulífs og fjölgun starfa sem stjórnvöld lofuðu hafi alls ekki gengið eftir og þar sé að miklu leyti um að kenna úrræða- og aðgerðarleysi stjórnvalda. Gylfi Arnbjörnsson var endurkjörinn forseti ASÍ á þinginu, en hann hlaut 69,8% atkvæða. Ragnar Þór Ingólfsson stjórnarmaður í VR sem einnig bauð sig fram til forseta fékk 30,2% atkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×