Viðskipti innlent

Forsendur kjarasamninga að bresta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Greining Íslandsbanka segir að kaupmáttaraukning verði innan við 1%.
Greining Íslandsbanka segir að kaupmáttaraukning verði innan við 1%. Mynd/ Vilhelm.
Forsendur kjarasamninga eru að bresta. Þetta er fullyrt í Morgunkorni Íslandsbanka, sem kom út nú rétt fyrir hádegi. Þar segir að ef horft sé fram á veginn sé útlit fyrir sú verðbólga sem nú sé í kortunum verði búin að éta upp nánast alla þá 7% hækkun sem samið var um í síðustu kjarasamningum fyrir lok þessa árs.

Ef sú verði raunin verði mikill þrýstingur á að auka við samningsbundna launahækkun þegar samningarnir verða opnaðir til endurskoðunar í janúar á næsta ári. Núverandi samningar hljóða upp á 3,25% hækkun launa á fyrsta fjórðungi næsta árs, en sett eru skilyrði um að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans, gengisvísitala krónu verði 190 stig og að kaupmáttur hafi aukist yfir þetta ár.

Greining Íslandsbanka segir hverfandi líkur á að fyrri tvö skilyrðin verði uppfylgt. Útlit sé fyrir að kaupmáttaraukning yfir árið verði innan við 1% þegar staðan verður tekin í desember, verðbólga verði þá 4,4% og þá sé nánast óhugsandi að krónan verði á þeim slóðum sem gert er ráð fyrir í forsendum kjarasamninga en til þess að það myndi nást þyrfti gengi krónunnar að styrkjast um 15% gagnvart helstu gjaldmiðlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×