Viðskipti innlent

Völdum fjárfestum fyrst boðið að kaupa bréf í Eimskipafélaginu

Magnús Hallórsson skrifar
Frá 23. október til 25. október verður takmörkuðum fjölda fjárfesta, völdum af Eimskipafélaginu og þeim sem umsjón hafa með skráningarferli Eimskipafélagsins á markað, þ.e. Straumi fjárfestingabanka og Íslandsbanka, boðið að skrá sig fyrir hlutum í félaginu á bilinu 205 til 225 krónur á hlut. Samkvæmt því verðmati er heilarvirði félagsins á bilinu 41 til 45 milljarðar króna.

Almenningi verður boðið að skrá sig fyrir hlutum í Eimskipafélaginu frá og með 30. október til 2. nóvember, í opnu útboðsferli, en gengi bréfa í því útboði ræðst af eftirspurn eftir bréfunum. Til stendur að selja 50 milljónir hluta í félaginu til nýrra eigenda í gegnum skráðan hlutabréfamarkað, en það samsvarar fjórðungi hlutfjár félagsins.

Fyrsti viðskiptadagur með bréf félagsins í Kauphöll verður ekki fyrr en í fyrsta lagi 16. nóvember, að því er segir í skráningarlýsingu fyrir félagið sem birt hefur verið á vef OMX Nasdaq kauphallar Íslands.

Stærsti einstaki eigandi Eimskipafélagsins er þrotabú Landsbanka Íslands hf. með ríflega 30 prósent hlut. Bandaríski fjárfestingasjóðurinn Yucaipa American Alliance Fund II á ríflega 15 prósent hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 14,6 prósent hlut. Yucaipa á í gegnum annan sjóð 10 prósent hlut í félaginu til viðbótar, og því er sameiginleg hlutafjáreign í nafni Yucaipa um 25 prósent af heildarhlutafé.

Sjá má skráningarlýsinguna, sem birt hefur verið á vef kauphallarinnar, hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×