Viðskipti innlent

Stjórnendur eignast hluti á mun lægra gengi en fjárfestar

Magnús Halldórsson skrifar
Framkvæmdastjórar Eimskipafélagsins hafa samið um að fá að kaupa hlutabréf í félaginu á genginu 0,839 evrur á hlut, eða sem nemur 135 krónum á hvern hlut. Samtals hafa stjórnendurnir fengið kauprétt á 8,75 milljónum hlutum í félaginu, sem jafngildir ríflega fjögurra prósenta hlut. Stjórnendurnir sex sem hafa fengið kauprétt á bréfum í félaginu eru forstjórinn Gylfi Sigfússon, Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmastjóri fjármála, Bragi Þór Marinósson, alþjóðasviði, Guðmunur Nikulásson, innanlandssviði, Ásbjörn Skúlason, rekstrarsviði, og Matthías Matthíasson, á sölu og þjónustusviði.

Þetta kemur fram í skráningarlýsingu Eimskipafélagsins, sem birt var á vef Nasdaq OMX kauphallar Íslands í dag.

Virði bréfanna miðað við fyrrnefnd gengi er ríflega 1,1 milljarður króna, en virði bréfanna, miðað við það gengi sem fjárfestum mun bjóðast í lokuðu útboði sem fer fram dagana 23. til 25. október, er tæplega 2 milljarðar króna. Þá verður miðað við 205 til 225 krónur á hlut, en búast má við því að það verði svipað, eða lítið eitt hærra, í opna útboðinu, þar sem almenningur getur skráð sig fyrir hlutum, 30. október til 2. nóvember.

Þannig fá helstu stjórnendur félagsins að eignast hlut í félaginu á umtalsvert lægra gengi en völdum fjárfestum býðst í lokuðu útboði. Við upphaf skráningar félagsins á markað er eignarhlutur stjórnenda þá þegar búinn að ávaxtast um tæplega einn milljarð, miðað við fyrrnefndar forsendur.

Til stendur að selja um 50 milljónir hluta í félaginu, og taka bréf félagsins til viðskipta í kauphöllinni í nóvember. Það verður gert í fyrsta lagi 16. nóvember, að því er segir í skráningarlýsingu.

Stjórn félagsins fékk heimild hluthafa Eimskipafélagsins, á hluthafafundi 27. maí 2010, til þess að gera kaupréttarsamninga við lykilstjórnendur þar sem gert er ráð fyrir, að þeir gætu eignast allt að 10 milljónir hluta, eða sem nemur fimm prósenta hlut.

Eimskip hagnaðist um átta milljónir evra, tæplega 1,3 milljarða króna á gengi dagsins í dag, á fyrstu sex mánuðum ársins 2012. Heildarvelta félagsins á tímabilinu var 198 milljónir evra, um 32 milljarðar króna. Hún jókst um tíu prósent á milli ára þegar búið var að taka tillit til einskiptisliðar upp á 6,4 milljónir evra, rúman milljarð króna.

Sjá má skráningarlýsinguna hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×