Viðskipti innlent

Alþjóðabankinn: Erfiðara en áður að stunda viðskipti á Íslandi

Ísland heldur áfram að falla niður árlegan lista Alþjóðabankans um hvar sé auðveldast að stunda viðskipti í heiminum.

Ísland fellur um eitt sæti og er komið niður í 14. sæti listans fyrir næsta ár. Ísland var iðulega í einu af topp tíu sætunum fyrir hrun en hefur fallið niður þennan lista síðan.

Í aðeins einum málaflokki af tíu sem mældir eru er Ísland í fyrsta sæti en það er aðgangur að rafmagni. Mest fellur Ísland í málaflokknum að stofna fyrirtæki en þar fer landið úr 37. sæti listans og niður í 45. sætið. Af öðrum málaflokkum má nefna lánamöguleika, fjárfestavernd og milliríkjaviðskipti.

Lægsta mælingin hvað Ísland varðar eru milliríkjaviðskiptin þar sem landið er í 82. sæti. Þar gætir áhrifa gjaldeyrishaftanna hér á landi.

Singapore er efst á þessum lista bankans og hefur raunar haldið því sæti undanfarin sjö ár. Öll hin Norðurlöndin eru fyrir ofan Ísland á listanum. Raunar er Svíþjóð aðeins einu sæti fyrir ofan Ísland á listanum og Finnland er í 11. sæti. Bæði Danmörk og Noregur eru hinsvegar í topp tíu sætunum.

Pólland er það land á listanum sem bætir stöðu sína mest að þessu sinni. Landið fer úr 62. sætinu og upp í 55. sætið á listanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×