Viðskipti innlent

Segjast falla frá kaupréttarsamningi til að stuðla að vexti

Forstjóri Eimskips, Gylfi Sigfússon, tilkynnti á heimasíðu Eimskips í kvöld að fyrirtækið hefði fallið frá umdeildum kaupréttarsamningum stjórnenda fyrirtæksins. Lífeyrissjóðir settu sig harkalega upp á móti kaupréttarsamningunum.

Raunar var þetta tilkynnt lífeyrissjóðunum fyrr en Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sagði í viðtali við fréttastofu stöðvar 2 í kvöld að hann hefði fengið þau skilaboð að búið væri að falla frá þessum hugmyndum og fagnaði hann því.

Í tilkynningu Gylfa segir meðal annars orðrétt: „Í framhaldi af móttöku tilboða í lokaða útboðinu hafa lykilstjórnendur Eimskips ákveðið að falla frá öllum kaupréttum sem þeim hafði verið úthlutað af félaginu frá árinu 2010 eftir vel heppnaða endurskipulagningu félagsins."

Tilkynningunni lýkur svo á þessum orðum Gylfa:

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að fyrsta áfanga að skráningu Eimskips á markað er lokið og að veruleg umframeftirspurn hafi verið eftir hlutabréfum félagsins. Það er von okkar að almenningur og aðrir fjárfestar muni sýna félaginu jafn mikinn áhuga og fagfjárfestar hafa nú gert. Eimskip stendur á traustum fótum og umtalsverð tækifæri eru á mörkuðum okkar á Norður-Atlantshafi. Starfsmenn Eimskips hafa ávallt hag félagsins að leiðarljósi. Ég og aðrir lykilstjórnendur viljum tryggja áframhaldandi vöxt Eimskips og framgang félagsins á hlutabréfamarkaði og höfum við því ákveðið að falla frá þeim kaupréttum sem okkur voru veittir."


Tengdar fréttir

Fallið frá kaupréttarsamningum stjórnenda hjá Eimskip

Stórum hluthöfum í Eimskipi hefur verið tilkynnt að fallið verði frá kaupréttarsamningum sem gerðir voru við helstu stjórnendur fyrirtækisins. Tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins tóku ekki þátt í hlutabréfaútboði félagsins meðal annars vegna samninganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×