Viðskipti innlent

Vilja að FME rannsaki hlutafjárútboð Eimskips

Lífeyrissjóðurinn Festa hefur óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið rannsaki hlutafjárútboð Eimskips sem lauk í gær. Samkvæmt frétt RÚV um málið telja forsvarsmenn lífeyrissjóðsins að fjárfestar hafi ekki allir setið við sama borð.

Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins Festu segir í samtali við RÚV að svo virðist sem menn hafi ekki allir setið við sama borð.

„Við höfum spurnir af því að í aðdraganda útboðsins í gærmorgun hafi verið hringt í einstaka fjárfesta og þeim gefinn kostur á að gera tilboð með fyrirvara um það að kaupréttarsamningar æðstu stjórnenda yrðu felldir niður. Við höfum óskað eftir því að Fjármálaeftirlitið rannsaki framkvæmd útboðsins og ef satt reynist þá standa menn ekki jafnfætis í tilboðsgerð og væri það ömurleg byrjun á endurvakningu íslensks hlutabréfamarkaðar," segir Gylfi í samtali við RÚV.

Stjórn Eimskips sendi tilkynningu á fjölmiðla síðdegis þar sem stjórnin vill koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. harmar villandi umræður um kaupréttaráætlun félagsins og í ljósi þess vill stjórn félagsins koma eftirfarandi staðreyndum á framfæri:

1. Kaupréttaráætlun Eimskips var samþykkt á Aðalfundi 2010 án athugasemda. Á Aðalfund 2010 voru mættir fulltrúar hluthafa félagsins, m.a. nokkurra íslenskra lífeyrissjóða. Á hlutahafa- og aðalfundum félagsins eftir það hafa ekki verið lagðar fram neinar athugasemdir við kaupréttaráætlun félagsins hvorki af fulltrúum lífeyrissjóða né öðrum hluthöfum. Slíkt hefði verið heppilegri vettvangur til að koma á framfæri athugasemdum við kaupréttaráætlun félagsins fremur en kvöldfréttatími Ríkissjónvarpsins kvöldið fyrir lokadag útboðs.

2. Kaupréttaráætlunin var að fullu í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög nr. 2/1995 og í samræmi við starfskjarastefnu félagsins sem samþykkt var á Aðalfundi þess árið 2010.

3. Forstjóri og framkvæmdastjórar Eimskips féllu einhliða frá kaupréttum sem þeir höfðu áunnið sér eftir móttöku tilboða í gær, fimmtudaginn 25. október. Þeir tilkynntu stjórn munnlega um ákvörðun sína kl. 18 í gærkvöldi og í kjölfarið var send út fréttatilkynning frá félaginu.

4. Kaupréttum var fyrst úthlutað í upphafi árs 2010 en til að geta nýtt kaupréttina að fullu þurftu stjórnendur að starfa hjá félaginu til ársins 2015. Því er óhætt að segja að þeir hafi ekki komið til á einni nóttu líkt og haldið hefur verið fram. Þar sem að gert var ráð fyrir að stjórnendur væru að vinna sér inn þessa kauprétti yfir 5 ára tímabil var horft til þess að tengja saman hagsmuni þeirra og félagsins til langs tíma.

5. Þegar kaupréttum var úthlutað var það alltaf gert m.v. virði félagsins á hverjum tíma án nokkurs afsláttar. Stjórnendur Eimskips höfðu áunnið sér 1,9% hlut í félaginu og miðað við útboðsgengið 208 krónur á hlut var ávinningur þess hlutar um 135 milljónir króna eftir greiðslu kaupverðs til félagsins og skatta. Sá ávinningur byggir á þeirri aukningu á virði félagsins sem orðið hefur síðastliðin 3 ár. Kaupréttirnir skiptust á sex stjórnendur.

Fjárfestar sýndu félaginu mikinn áhuga í lokuðu útboði sem lauk í gær fimmtudaginn 25. október. Stjórn félagsins vonar að almenningur muni sýna félaginu jafn mikinn áhuga í fyrirhuguðu almennu útboði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×