Viðskipti innlent

Níu af ellefu prófmálum eru óþörf

Níu af þeim ellefu prófmálum sem höfða átti útaf óvissu um endurútreikning gengistryggðra lána eru óþörf að mati hæstarréttarlögmanns. Hann segir óvissu einungis ríkja um mjög takmarkaðann hluta lánasafna bankanna og það eigi ekki að tefja fyrir endurútreikningi almennt.

Eftir að fyrsti dómur um afturvirka vexti á gengistryggðum lánum féll í febrúar síðastliðnum valdi starfshópur ellefu prófmál til að leysa úr tuttugu og tveimur álitaefnum sem upp hafa komið varðandi endurútreikningana. Þessi mál átti að njóta flýtimeðferðar í dómskerfinu en um miðjan þennan mánuð höfðu hins vegar einungis tvö af þessum málum verið þingfest.

Lögmaður Borgarbyggðar sem vann mál gegn Arion Banka á dögunum vegna vaxtaútreikninga segir fordæmisgildi dómsins óumdeilt.

„Að þessi dómur, hann nær til allra lána sem á annað borð hafa verið greidd með fullnaðarkvittun, hvort sem þau eru löng eða stutt, eða á annan hátt afbrigðisleg - þau sem eru í okkar máli," segir Skarphéðinn Pétursson, hæstaréttarlögmaður hjá Veritas.

Hann segir lánafyrirtækjunum því ekkert að vanbúnaði að hefja endurútreikning lána.

„Við höfum farið yfir samantekt starfshópsins sem lagði til að þessi 11 prófmál færu í flýtimeðferð og komist að þeirri niðurstöðu að minnsta kosti níu af þessum ellefu málum eru óþörf. Það eru svona mjög sérstök tilvik þar sem samningsvextir hafa hugsanlega verið hærri en seðlabankasvextir á lánum tekin nálægt hruni, þar gæti lántaki átt frekari rétt og eins hvernig á að fara með vexti af ógengistryggðum höfuðstól."

Þessi tilvik séu hins vegar mjög lítill hluti af lánasöfnum bankanna.

„Þetta eru bara svo fá mál að drepa málinu á dreif og tefja útreikninga á þeim grundvelli, það er ekki boðlegt gagnvart 90% heimila sem eru með þessi lán og fyrirtækja."

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tók í sama streng á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.

„Í ljósi nýjasta dóms Hæstaréttar eru allar grundvallarforsendur varðandi útreikningana komnir á borðið og því ekki eftir neinu að bíða með endurreikning lánanna - amk hvað varðar heimilin og öll smærri fyrirtæki landsins. Frekari undansláttur fjármálastofnannavarðandi þessa útreikninga verður ekki liðinn - lánin þarf að endurreikna strax!"










Fleiri fréttir

Sjá meira


×