Viðskipti innlent

Segja nauðasamninga ekki ógna stöðugleika

Magnús Halldórsson skrifar
Lögmenn stærstu kröfuhafa Glitnis og Kaupþings segja útgreiðslu á mörg hundruð milljörðum króna til þeirra í erlendri mynt eftir að nauðasamningar hafa verið samþykktir, ekki ógna stöðugleika hér á landi. Útflæði á krónueign í eigu kröfuhafa verður stýrt í samræmi við reglur Seðlabanka Íslands.

Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum vikum verið að afla upplýsinga um hvaða áhrif nauðasamningar við kröfuhafa Glitnis og Kaupþings geta haft á íslenskan efnahag. Í minnisblaði sem að lögmenn kröfuhafa tóku saman fyrir Alþingi kemur fram að staða íslenska hagkerfisins styrkist frekar en hitt með nauðasamningum við kröfuhafana.

Í minnisblaðinu segir meðal annars að lausum eignum í erlendum gjaldeyri, sem ekki eru bundnar gjaldeyrishöftum, verði ráðstafað til kröfu, en í hópi þeirra eru erlendir vogunar- og skuldabréfasjóðir stærstir. Í minnisblaðinu segir að útgreiðslan muni hafa jákvæð áhrif á hreina gjaldeyrisstöðu íslenska þjóðarbúsins þar sem erlendur gjaldeyrir verður greiddur til íslenskra kröfuhafa, sem eru þó í miklum minnihluta í kröfuhafahópnum.

Þrotabú Kaupþings og Glitnis eru tröllvaxin í samanburði íslenska hagkerfið, en heildareignir eru metnar á ríflega 1.700 milljörðum króna, en landsframleiðsla nemur ríflega 1.600 milljörðum króna.

Lausaféð, sem kröfuhafar fendur í sínar hendur þegar nauðasamningur hefur verið samþykktur, er gríðarlega mikið.

Þrotabú Glitnis á nú 322 milljarða króna í erlendri mynt, tæplega 30 í íslenskum krónum, eða samtals 352 milljarða króna í reiðufé. Þrotabú Kaupþings á 353 milljarða króna í erlendri mynt, ríflega 19 milljarða í krónum eða samtals 372 milljarða króna. Eða samtals um 725 milljarðar króna.

Seðlabankinn fylgist grannt með gangi mála, og hefur gefið það skýrt til kynna, að engin áhætta verði tekin þegar kemur að nauðasamningum. Kappkostað verði að hafa almannahag að leiðarljósi, við útgreiðslu íslenskra króna í erlendri eigu. Í minnisblaði lögmanna kröfuhafana kemur skýrt fram að þeir vilji ekki eiga banka hér á landi til framtíðar, og leiti því að góðum framtíðar eigendum að Íslandsbanka og Arion banka, sem verða stórar eignir sem eftir sitja þegar laust fé hefur verið greitt út búunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×