Viðskipti innlent

Lýður hafnar því að um blekkingar hafi verið að ræða

Magnús Halldórsson skrifar
Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson neituðu báðir sök þegar ákæra á hendur þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lýður segist engum blekkingum hafa beitt og segir ákæruna hafa komið á óvart.

Lýður og Bjarnfreður voru báðir mættir í Héraðsdóm Reykjavíkur í dag þegar ákæra á hendur þeim var þingfest. Þeir sögðust báðir saklausir af ákæruatriðunum, og óskuðu eftir átta vikna fresti til þess að skila greinargerð.

„Meginþemað í þessari ákæru er að blekkingum hafi verið beitt. Ég þvertek fyrir það. Það hefur legið fyrir frá upphafi í þessu máli hvernig málið liggur í opinberum gögnum, svo sem tilkynningum til Kauphallar, skýrslum til FME og svo framvegis," segir Lýður.

Þú hlýtur að hafa gert grein fyrir þessum atriðum öllum hjá sérstökum saksóknara samt er þetta að leiða til ákæru. Þannig að þetta hlýtur að vera eitthvað málum blandið að minnsta kosti, sagði fréttamaður.

„Að öðru leyti tjái ég mig ekki um málið," svaraði Lýður.

Í ákærunni er Lýði, sem var stjórnarformaður Exista, gefið að sök stórfellt brot gegn hlutafélagalögum með því að standa fyrir greiðslu upp á einn milljarð króna fyrir nýtt fimmtíu milljarða króna hlutafé í félaginu í desember árið 2008.

Milljarðurinn kom í raun frá Lýsingu hf., dótturfélagi Exista, í formi láns en samkvæmt ákæru rann upphæðin aldrei inn í rekstur Exista. Upphæðin var þess í stað vistuð á vörslureikningi Logos lögmannstofu.

Meint brot Bjarnfreðar, samkvæmt ákæru, snýr að því að vísvitandi hafi verið ranglega tilkynnt um hækkun á hlutafé Exista, í tilkynningu til hlutafélagaskrár. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra úrskurðaði hlutafjáraukninguna ólöglega hinn 29. júní 2009 og kjölfarið kærði fyrirtækjaskrá og Arion banki hlutafjáraukninguna til embættis sérstaks saksóknara. Nú, rúmum þremur árum síðar, hefur rannsókn embættisins leitt til ákæru.

Í ákæru segir orðrétt, að "brotið sé stórfellt í ljósi þess að um var að ræða 50 milljarða króna hlutafé og greiðslan nam einungis 2 prósent af nafnvirði þess."

Fyrirtaka í málinu fer næst fram 5. desember en þau munu ákærðu leggja fram greinargerð sína í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×