Viðskipti innlent

Vill fá skýringar á háum vöxtum á lánum Norðurlandanna

Magnús Halldórsson skrifar
Helgi Hjörvar, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram fyrirspurn til ríkisstjórna Norðurlandanna um hvers vegna Ísland sé látið greiða hærri vexti af lánum landanna hingað til lands heldur Írland af sambærilegum lánum frá Norðurlöndunum. Svör munu liggja fyrir í næsta mánuði.

Um er að ræða lán sem Norðurlöndin veittu eftir hrunið fjármálakerfisins.

Kjörin á lánunum hingað til lands eru þriggja mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 2,75 prósenta álagi. Sambærileg lán til Írlands bera 3 mánaða EURIBOR vexti en aðeins eitt prósent álag.

Á þessu vill Helgi fá skýringar, ekki síst í ljósi þess að skuldatryggingaálag Íslands á markaði er lægra en Írlands.

„Munurinn virðist vera umtalsverður, og það kemur manni á óvart, ekki síst þegar lánakjörin eru skoðuð sem Evrópuþjóðir njóta."

Kostnaður ríkisins vegna afborgana er umtalsverður, og sem dæmi má nefna þá er gert ráð fyrir að ríkið greiði 88 milljarða í vexti í næsta ári. Hvert prósentustig í vöxtum vegur því þungt.

„Ég held að það sé eðlilegt að við, sem þátttakendur í norrænu samstarfi, njótum í það minnsta sambærilegra kjara á við aðrar Evrópuþjóðir, þegar kemur að lánakjörum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×