Viðskipti innlent

Um 10 starfsmenn launahærri en Jóhanna

BBI skrifar
Mynd/GVA
Eins og stendur eru um 10 manns í stjórnkerfinu með hærri laun en forsætisráðherra. Aftur á móti er það aðeins forseti sem er með hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra. Þetta kom fram í umræðum á Alþingi í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á því að þrátt fyrir lög um að forsætisráðherra skyldi vera hæst launaði embættismaður stjórnkerfisins væru nokkur dæmi um að menn fengju hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir þegar allar launatengdar greiðslur eru taldar með. „Þetta hljómar eins og aldrei hafi staðið til að framkvæma lögin," sagði Guðlaugur.

Jóhanna benti á að takmörkunin hafi verið sett á á sínum tíma til að koma í veg fyrir ofurlaun hjá ríkinu. „Og það hefur tekist að mínu mati," bætti hún við. Hún benti á að nú væri til meðferðar í þinginu lög sem heimila undanþágu frá reglunum. Sú undanþága gæti átt við forstjóra Landsvirkjunar og bankastjóra Landsbankans til dæmis. „Það er byrjað að vinda ofan af þessu, sem ég held að við eigum að gera," sagði Jóhanna.

Hún benti einnig á að í sjálfu sér væri aðeins forseti með hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra þó einhverjir væru með hærri laun þegar allar greiðslur væru taldar með. Það sé einmitt þetta sem lögin eigi að tryggja og því sé í raun farið eftir þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×