Viðskipti innlent

Glitni gert að greiða lækni tólf milljónir út af Latabæ

Hæstiréttur Íslands féllst á skaðabótakröfu heimilislæknis frá Garðabæ gegn Glitni en hann keypti skuldabréf útgefið af Latabæ árið 2006 fyrir tvö hundruð þúsund Bandaríkjadali. Hann tapaði peningunum að lokum þegar Latibær leitaði nauðarsamninga árið 2011. Læknirinn taldi tjón sitt stafa af því að hann hafi, vegna vanrækslu Glitnis á upplýsingaskyldu sinni, keypt umrætt skuldabréf án þess að honum hefði verið kunnugt um þá áhættu, sem í því fólst.

Komið hafi í ljós að Latibær gat ekki staðið við skuldbindingar sínar og það leitt til þess tjóns, sem læknirinn krafðist bóta fyrir. Auk þess hafi Glitnir vanrækt að upplýsa um tengsl sín við Latabæ og hagsmuni af skuldabréfaútboðinu sem læknirinn tók þátt í.

Bankinn leit raunar svo á að læknirinn væri fagfjárfestir, enda hafði hann verið í viðskiptum við bankann frá 2001 og oft stundað verðbréfaviðskipti. Á það fellst Hæstiréttur ekki, en Benedikt Bogason hæstaréttardómari skilar inn sérákvæði hvað það varðar og vill meina að læknirinn hafi stundað umfangsmikil viðskipti og að auki setið kynningarfund um útgáfu skuldabréfsins, því hafi bankanum ekki láðst að upplýsa hann um stöðu mála.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður úrskurðað Glitni í hag en nú snýr Hæstiréttur þeim dómi. Er Glitni því gert að greiða lækninum tæplega tólf og hálfa milljón króna í skaðabætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×