Viðskipti innlent

Eignir í bönkum og Landsvirkjun meira en 400 milljarða virði

Magnús Halldórsson skrifar
Heildarvirði Landsbankans, sé mið tekið af eigin fé (innra virði) er 212 milljarðar króna. Stjórnvöld hafa huga á því að selja hlut sinn í bönkunum á næsta ári.
Heildarvirði Landsbankans, sé mið tekið af eigin fé (innra virði) er 212 milljarðar króna. Stjórnvöld hafa huga á því að selja hlut sinn í bönkunum á næsta ári.
Eignarhlutir íslenska ríkisins í endurreistu bönkunum þremur og Landsvirkjun eru ríflega 400 milljarða króna virði, sé mið tekið af eigin fé Íslandsbanka, Landsbankans og Arion banka annars vegar, og síðan Landsvirkjunar, sem ríkið á að fullu.

Eigið fé Landsbankans var um mitt þetta ár 212 milljarðar króna, og miðað við það er ríflega 81 prósent hlutur ríkisins ríflega 170 milljarða króna virði. Eigið fé Íslandsbanka var 135,5 milljarðar um mitt þetta ár og er fimm prósenta hlutur ríksins því 6,7 milljarða króna virði. Eigið fé Arion banka var ríflega 125 milljarðar um mitt þetta ár, og er þrettán prósent hlutur ríkisins um 16,25 milljarða króna virði.

Eigið fé Landsvirkjunar nam 206 milljörðum króna um mitt þetta ár. Ríkið er eini eigandi fyrirtækisins, eftir að það keypti tæplega helmingshlut í fyrirtækinu af Reykajvíkurborg og Akureyrarbæ árið 2006.

Sé virði þessara eigna lagt saman nemur það yfir 400 milljörðum króna. Íslensk stjórnvöld stefna að því að selja hluti í bönkunum á þessu ári, til þess að styrkja fjárhag ríkissjóðs, einkum með því að lækka skuldir og draga úr vaxtakostnaði.

Ekki liggur þó fyrir enn hvenær það verður gert, eða með hvaða hætti. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lét hafa eftir sér í viðtali við Bloomberg fyrr á árinu að stjórnvöld vildu halda eftir kjölfestuhlut í Landsbankanum, í kringum 70 prósent hlut, en selja hluti sína í bæði Íslandsbanka og Arion banka. Þá yrði stefnt að því að selja hlutina í bönkunum með þeim hætti að eignaraðild yrði vel dreifð á fjölda fjárfesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×