Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands ekki verið lægra síðan vorið 2008

Svo virðist sem traust fjárfesta í garð íslenska ríkisins fari vaxandi þessa daganna miðað við hvernig skuldatryggingaálagið á Ísland hefur þróast frá fyrrihluta sumars.

Skuldatryggingaálag Íslands er komið undir 200 punkta og hefur þar með ekki verið lægra síðan á vormánuðum árið 2008. Framan af því ári hafði álagið lengi verið stöðugt í kringum 180 punkta en hækkaði síðan upp í 220 punkta í júní.

Skuldatryggingaálagið stendur nú í 198 punktum eins og sjá má á vefsíðunni keldan.is sem aftur hefur upplýsingar sínar frá Bloomberg og CMA gagnaveitunni. Það hefur hríðlækkað að undanförnu eftir að það náði hámarki í ár fyrrihluta sumars þegar það mældist 312 punktar.

Lækkun á álaginu nú sýnir að lánstraust íslenska ríkisins fer vaxandi erlendis og ætti það að leiða til þess að lánakjör ríkisins fari batnandi.

Því lægra sem álagið er því meira traust bera fjárfestar til viðkomandi ríkis. Þannig má nefnda að skuldatryggingaálög hinna Norðurlandanna eru öll vel innan við 50 punkta og raunar er álagið ekki nema rúmlega 20 punktar á skuldir Noregs.

Álag upp á 198 punkta þýðir að það kostar tæp 2% af nafnverði skuldabréfs til fimm ára til að tryggja það gegn greiðslufalli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×