Viðskipti innlent

Skattahækkun á ferðaþjónustu gengur ekki upp

Ferðaþjónustan ræður ekki við hækkun á virðisaukaskatti í ferðaðþjónustu og mun lenda í miklum rekstrarerfiðleikum ef af henni verður. Þetta segir Alexander Eðvardsson sérfræðingur á hjá KPMG sem skoðað hefur rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu, en afkoman í greininni er ekki nægilega góð, þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna. Aldrei hafa komið fleiri ferðamenn til landsins á ári en í fyrra, en þeir voru 565 þúsund. Allt stefnir í að ferðamennirnir verði fleiri á þessu ári.

Alexander G. Eðvardsson, sérfræðingur hjá KPMG, segir það hafa komið á óvart hversu þungur reksturinn í ferðaþjónustunni væri. En af 35 hótel og gististöðum (18 í Reykjavík og 17 á landsbyggðinni) sem skoðuð voru, var reksturinn hjá neikvæður í Reykjavík um tæplega 600 milljónir í fyrra en jákvæður um tæplega 200 milljónir á landsbyggðinni. Þarna vegur þungt meiri húsnæðiskostnaður í Reykjavík og meiri skuldsetning.

„Miðað við okkar skoðun, sem byggðist á ítarlegum rekstrargögnum frá fyrirtækjunum sjálfum, þá geta þessi fyrirtæki ekki borið hækkunina á virðisaukaskattinum, hún gengur ekki upp, þar sem það myndi skerða samkeppnishæfnina og veikja reksturinn, sem er veikur og viðkvæmur fyrir. Allar sviðsmyndir sem við settum upp sýndu að ferðaþjónustan gæti ekki tekið á sig þessa hækkun, og að ríkissjóður myndi heldur ekki fá meira í kassann, til lengri tíma litið," sagði Alexander.

Athyglisvert er að skoða rekstur þessara hótela og gistiheimila sem KPMG skoðar í samanburði við hálfsuppgjör HB Granda sem birt var í gær. Heildartekjur í gistiþjónustu í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, námu um 4,7 milljörðum króna í fyrra, sem er einungis litlu meira en rekstrarhagnaður HB Granda á fyrstu sex mánuðum þessa árs.

Sjá má glærur, sem sýndar voru á fundi KPMG í morgun, hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×