Um fjörutíu nemendur náðu inntökuprófi í hagfræðideild Háskóla Íslands af 45 sem tóku prófið. Daði Már Kristófersson kennari við hagfræðideild segir að vel hafi tekist til með inntökuprófið.
Ákveðið var að setja á fót nýtt inntökuferli fyrir nemendur við hagfræðideild Háskóla Íslands í haust og þurftu þeir, sem voru að byrja í námi við deildina, að ná lágmarki í inntökuprófi.
Samtals skráðu um 75 nemendur sig í prófið, en þegar á hólminn var komið mættu 45 nemendur í það. Um 40 nemendur af þeim stóðust þær kröfur sem deildin seitti í prófinu, og segir Daði Már Kristófersson, kennari við hagfræðideildina og dósent, að vel hafi tekist til.
„Þeir nemendur sem nú byrja nám eru betur undirbúnir en að jafnaði á sama tíma undanfarin ár,“ segir Daði.
Daði segist vera hlynntur því að Háskóli Íslands taki inntökuprófin upp í fleiri deildum, þar sem þau hjálpi til við undirbúning nemenda, aukið skilvirkni í kennslu og geti aukið faglega vinnu innan skólans til framtíðar litið.
