Viðskipti innlent

Íslendingar ekki bjartsýnni í fjögur ár

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fólk er bjartsýnt fyrir framtíðina.
Fólk er bjartsýnt fyrir framtíðina. mynd/ daníel rúnarsson
Íslendingar hafa ekki verið bjartsýnni á stöðu efnahags- og atvinnumála í fjögur ár, eða frá því í apríl 2008, ef marka má væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var í morgun. Vísitalan fyrir ágústmánuð er 85,5 stig og hækkar um 1,1 stig frá fyrri mánuði, en hún hækkaði jafnframt talsvert í júlí, eða um 4,5 stig.

Í morgunkorni Greiningar Íslandsbanka í dag er ítarleg umfjöllun um væntingarvísitöluna. Þar segir að hún hafi nú hækkað samfellt undanfarna 5 mánuði sem endurspeglar léttari lund landans eftir því sem efnahagsbatinn festir sig betur í sessi, atvinnuástandið batnar og horfurnar fyrir framtíðina skýrast. Enn er vísitalan þó undir 100 stigum sem þýðir að enn eru fleiri neikvæðir en jákvæðir, en núna í ágúst voru 10% svarenda jákvæðir á núverandi ástand í efnahags og atvinnumálum á meðan 41,6% voru neikvæðir. Þegar vísitalan fer yfir 100 stig eru fleiri jákvæðir en neikvæðir, en það hefur ekki gerst síðan í febrúar 2008.

Þrátt fyrir að enn séu fleiri neikvæðir en jákvæðir á núverandi ástand er bjartsýnin varðandi framtíðina öllu meiri, Undirvísitalan sem mælir væntingar til 6 mánaða stendur nú í 108,9 stigum og hækkar um 2 stig frá fyrri mánuði. Vísitalan hefur verið yfir 100 stigum samfellt undanfarna fjóra mánuði sem bendir til þess að aukinn bjartsýni varðandi framtíðina sé að festa sig í sessi, og að landinn sé nú orðinn viss um að búið sé að bíta úr nálinni og ástandið fari nú upp á við. Vísitalan sem mælir mat á atvinnuástandi hækkar mikið frá fyrri mánuði, eða um 10 stig, sem endurspeglar bjartari horfur á atvinnumarkaði. Skráð atvinnuleysi í júlí mældist 4,7% og hefur það ekki verið minna síðan í nóvember árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×